Ómetanlegir munir glötuðust á Seyðisfirði

Skriðan lenti á innsta hluta Gömlu Vjelsmiðjunnar og ómetanlegar menningarminjar …
Skriðan lenti á innsta hluta Gömlu Vjelsmiðjunnar og ómetanlegar menningarminjar gjöreyðilögðust á meðan öðrum má bjarga. Ljósmynd/Aðsend

„Safnið er ekki á núllpunkti en það eyðilagðist mjög mikið. Aðra hluti þarf að meta og er verið að taka afstöðu til hvort hægt sé að geyma eða ekki,“ segir Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir ráðgjafi hjá Tækniminjasafni Íslands sem var undir einni aurskriðunni á Seyðisfirði í desember. 

Elfa segir að búið sé að tæma og ryðja í burt húsunum tveimur og hálfu sem eyðilögðust alveg í skriðunni. Hálfa húsið sem eftir stendur kallast gamla vélsmiðjan og er frá 1907 og er önnur elsta vélsmiðja landsins. Búið er að dæma vélsmiðjuna ónýta þar sem burðarvirkið er farið og og því mun hún ekki nýtast safninu. 

„Svo að nú þurfum við að finna út úr hvar þetta safn á að vera, það er mjög mikil vinna framundan,“ segir Elfa. 

Þúfubaninn, 1924 International, sem Seyðisfjarðarkaupstaður keypti til landræktar á kreppuárunum …
Þúfubaninn, 1924 International, sem Seyðisfjarðarkaupstaður keypti til landræktar á kreppuárunum verður líklega ekki bjargað. Ljósmynd/Aðsend

Ómetanlegir munir glötuðust í aurskriðunum. Elfa nefnir sérstakleg prentverkstæði með gömlum prentvélum sem voru í notkun. „Bæði listamenn og aðrir komu að til að nota prentverkstæðið, bæði nemar frá Listaháskólanum og sjálfstæðir listamenn. Það er núna farið.“

Elfa segir úttektina á því hvað er endanlega glatað ekki vera lokið.

Hópfjármögnunin sem ráðist var í febrúar rennur út í fjóra daga. Elfa segir að safnið hafi fengið einhverjar bætur fyrir húsin sem fóru en þeir fjármunir séu sérstaklega hugsaðir fyrir nýtt húsnæði. Á nógu öðru sé að taka. 

Vinnan sem fram hefur farið við að meta safnmuni hefur verið undir forystu Þjóðminjasafnsins sem er höfuðsafn Tækniminjasafnsins. Elfa segir fallegt hvernig safnasamfélagið í landinu tók sig saman og lagði til hjálp við mat muna. Þá sé að koma mikil þekking út úr samvinnunni í safnasamfélaginu. 

„Ekki velkomin þekking, en það er að koma þekking um hvað gera skal þegar safn lendir í aurskriðu. Hún er önnur en þegar safn lendir í jarðskjálfta eða eldgosi,“ segir Elfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert