Sigurjón og Elín dæmd á ný í Hæstarétti

Sigurjón Þ. Árnason var dæmdur fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í …
Sigurjón Þ. Árnason var dæmdur fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Hæstarétti í dag. Ljósmynd/Þórður Arnar

Sigurjón Þorvaldur Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var í dag dæmdur í Hæstarétti í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir markaðsmisnotkun og tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir markaðsmisnotkun í Ímon-málinu svokallaða.

Um er að ræða endurupptöku á tveimur málum sem Sigurjón var sýknaður af árið 2014 í héraði en fundinn sekur í árið 2016 í Hæstarétti. 

Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, var einnig fundin sek um markaðsmisnotkun í Ímon-málinu en ekki gerð refsing. Hún hafði áður afplánað 16 mánaða fangelsisrefsingu á grundvelli dóms Hæstaréttar í hinu endurupptekna máli.

Í dómi Ímon-málsins segir að brot Sigurjóns hafi verið til þess fallið að hafa veruleg áhrif á verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands og þar með raska tiltrú fjárfesta og almennings á fjármálamarkaðinum. Þeir hagsmunir verði ekki metnir til fjár. 

„Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að um var að ræða kerfisbundna markaðsmisnotkun sem beindist að verulegum hagsmunum og fjölda viðskiptamanna að ógleymdum hagsmunum almennings alls af heilbrigðum mörkuðum,“ segir í dóminum. 

Hlutu ekki réttláta málsmeðferð

Sigríður Elín lagði íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í fyrra þegar dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hún hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð vegna þess að einn hæstaréttardómara sem dæmdi í máli hennar tapaði 8,5 milljónum króna við fall Landsbankans árið 2008. Í kjölfarið viðurkenndi íslenska ríkið einnig brot á mannréttindum Sigurjóns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka