Sunna Kristín Hilmarsdóttir, fréttamaður á Vísi, hefur verið ráðin kosningastjóri Viðreisnar. Sunna hefur starfað á Vísi síðustu sjö ár og lengst af verið staðgengill fréttastjóra.
Sunna hefur meðal annars stýrt kosningaumfjöllun Vísis í aðdraganda forsetakosninga 2016 og í kringum þingkosningarnar 2017, en fær nú það verk að stýra kosningastarfi flokksins fyrir þingkosningar sem haldnar verða 25. september. Hún hefur störf 1. apríl.
Sunna er með BA-próf í spænsku frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í suðuramerískum stjórnmálum frá University College London.
Hún hefur áður starfað sem kennari, meðal annars í Ekvador og á Akureyri, og í frístundastarfi í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu frá flokknum. Sunna býr í Langholtshverfi með sambýlismanni sínum, Tómasi Þór Þórðarsyni, ritstjóra enska boltans hjá Símanum.