Skólaárið 2019-2020 fengu 14.412 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðning, eða 31,2% allra nemenda. Það er fjölgun um 750 nemendur frá fyrra skólaári þegar hlutfallið var 29,8%.
Nemendur í sérkennslu og með stuðning hafa ekki verið fleiri frá því Hagstofan hóf innsöfnun talna um sérkennslu skólaárið 2004-2005.
Drengir voru 60,7% og stúlkur 39,3% af þeim nemendum sem fengu stuðning og hefur það hlutfall verið svipað undanfarin ár. Nemendur sem hafa erlent móðurmál og fá stuðning vegna íslenskunáms hafa aldrei verið fleiri og voru 3.448 skólaárið 2019-2020, tæplega 600 fleiri en árið áður.
Meðalfjöldi skóladaga 2019-2020 var 175,3 og er það fækkun um 4,3 daga frá meðaltali síðasta árs. Helsta skýring á fækkuninni eru dagar þar sem kennsla féll niður vegna kórónuveirufaraldursins (Covid-19).
Hagstofa Íslands mun á næstunni birta nánari greiningu á áhrifum faraldursins á skóladaga í grunnskólum skólaárið 2019-2020 að því er segir í frétt á vef stofnunarinnar.
Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að árlegur starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar nemenda skuli ekki vera færri en 180 á hverju skólaári.
Grunnskólanemendum sem læra erlend tungumál hefur farið fjölgandi. Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og það tungumál sem flestir nemendur læra. Skólaárið 2019-2020 lærðu 38.089 börn ensku eða 82,3% nemenda. Kennsla í ensku hefst oftast í 4. bekk en þó er enska kennd í 1.-3. bekk í fjölmörgum skólum. Dönskunám hefst svo í 7. bekk, eða við 12 ára aldur hjá flestum nemendum, og lærðu tæplega 20 þúsund nemendur dönsku skólaárið 2019-2020.