Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir óviðunandi að Breiðafjarðarferjan Baldur bili aftur með sambærilegum hætti og hún gerði síðast í júní í fyrra.
„Staðan á þessu skipi og þessari þjónustu er óviðunandi, finnst mér,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
Um 20 farþegar hafa verið fastir um borð í Baldri í sólarhring eftir að ferjan bilaði á miðjum Breiðafirði í gær. Verið er að reyna að draga ferjuna að bryggju í Stykkishólmi.
Samningur Vegagerðarinnar við Sæferðir um rekstur ferjunnar rennur út vorið 2022. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, sagði við mbl.is áðan að á endanum snerist þetta allt um fjármagn. Það sneri að ríkinu, en ekki að rekstraraðilanum.
Sigurður Ingi: „Eins og er eru það Sæferðir sem eru með þennan samning og þessa þjónustu. Hún þarf auðvitað vera ásættanleg miðað við þann samning og þá fjármuni sem greitt er fyrir. Það er síðan annað mál hvenær nákvæmlega þarf að höggva á þann hnút. Samningurinn gildir til 2022.“
Hvað áttu við með því að höggva á þann hnút?
„Þessi þjónusta er óviðunandi. Þetta getur ekki verið svona,“ segir Sigurður.
Ráðherra segir að raddir hafi heyrst um að leggja siglingar niður á svæðinu en hann er á öðru máli. Þjónusta þurfi Breiðafjörð með ferjusamgöngum. „En það er nokkuð augljóst að það verður að gerast með betri og öruggari þjónustu en við horfum á í dag.“
Einhverjir hafa vakið máls á að gamli Herjólfur gæti hlaupið í skarðið fyrir ferjuna en Sigurður segir að það yrði aldrei annað en tímabundið. Hann vill skoða framtíðarlausnir með það fyrir augum að fá nýja ferju á svæðið sem gæti gengið fyrir öðru en dísel.
Sem stendur eru samgöngur til sunnanverðra Vestfjarða með versta móti. Ferjan er biluð, Klettsháls ófær og ekki er flogið á Bíldudal. Sigurður Ingi segir að brugðið sé frá verklagsreglum um mokstur við svona aðstæður og mokað meira á heiðum til að tryggja samgöngur. Það nær þó aðeins eins langt og það nær.