Tveir möguleikar í stöðunni

Sandfell í forgrunni. Handan þess fyrir miðju rís Fagradalsfjall.
Sandfell í forgrunni. Handan þess fyrir miðju rís Fagradalsfjall. mbl.is/Skúli Halldórsson

„Staðan er óbreytt,“ segir Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, um jarðskjálftahrinu og kvikuganginn á Reykjanesskaga. Jarðskjálfti sem mæld­ist 5 að stærð varð við Fagra­dals­fjall klukk­an 07:43 í morg­un og er hann einn sá stærsti í hrinunni. Magnús Tumi segir að staðan eftir þann skjálfta verði betur metin á fundi vísindaráðs almannavarna í hádeginu.

Magnús Tumi segir að kvikugangurinn hafi færst suður á síðustu dögum en færslan virðist þó ekki hafa verið mikil síðastliðinn sólarhring.

Samkvæmt hraunflæðilíkani Veðurstofunnar frá því í gær er sprunga staðsett þar sem kvikugangurinn er upp af Nátthaga við Fagradalsfjall.

„Gangurinn hefur verið að mjaka sér til suðurs og það hefur ekkert gerst í norðurhlutanum í nokkra daga. Það þýðir að þá getur meiriparturinn af því hafa storknað núna,“ segir Magnús Tumi. Hann segir að mögulegt eldgos gæti endað eins í syðri hlutanum:

„Það eru tveir möguleikar; að það verði ekki gos eða að það verði gos. Meðan kvikan og gangurinn er að lengjast í suður verðum við að vera viðbúin því að það geti farið að gjósa en það er ekkert víst.“

Magnús Tumi segir mögulegan gosstað að mörgu leyti ekki óheppilegan. Hraun muni þá leita í átt til sjávar en gosið yrði að vera ansi lítið til að það færi ekki yfir Suðurstrandarveginn.

„Síðan myndi það væntanlega fara út í sjó enda er ströndin þarna samfellt hraun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert