Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands hefur birt nýtt líkan yfir eldsuppkomunæmi dagsins. Þar segir að rauður sporöskjulaga ferill sé dregin utan um svæðið við Fagradalsfjall, þar sem gangainnskotið sé og meginumbrotasvæðið.
„Næmisblettirnir sem koma fram í okkar greiningu utan Fagradalssvæðisins eru, samkvæmt túlkun jarðeðlisfræðinga, taldir vera afleiðing spennubreytinga í jarðskorpunni vegna áhrifa frá kvikuinnskotinu á Fagradalssvæðinu. Gögnin sem afmyndunarhópurinn hefur sett fram gefa sterka vísbendingu um að skjálftarnir við Fagradalsfjall tengjast beint færslu á kviku, en þeir sem eru lengra til vesturs og austurs virðast vera gikkskjálftar og tengjast ekki beint tilfærslu á kviku,“ segir í færslu hópsins á Facebook.
Fram kemur, að aðferðarfræðin á bak við þessa greiningu sé sú sama og í fyrri greiningum. Hún sé undirbyggð af eldsuppkomunæminu sem sé reiknað út frá jarðfræðilegum gögnum og eldgosasögu Reykjanesskaga síðustu 10.000 ár.
„Þessir reikningar gefa til kynna líklegustu eldsuppkomusvæðin á öllum Reykjanesskaga. Til þess að fá líklegasta eldsuppkomusvæðið í tengslum við núverandi umbrot, þá eru staðsetningar jarðskjálfta teknar með inn í reiknilíkanið, þar sem skjálftar dagsins hafa 40% vægi, skjálftar gærdagsins 20% vægi og jarðfræðilega eldsuppkomunæmið vegur 40%. Að undanförnu, eins og þið hafið eflaust tekið eftir, þá er næmissvæðið á Fagradalsfjalli nokkuð stöðugt, en talsverð færsla er á næmissvæðum út frá því. Staðsetning jarðskjálfta fengin frá Veðurstofu Íslands.“
Hópurinn segir ennfremur birt kort sem sýnir líklegar leiðir hrauna ef til eldgoss kæmi á næstunni. „Miðað við eldsuppkomunæmið, sem var birt fyrr í dag, sýnir að Fagradalssvæðið stækkar, því eru mögulegir gosstaðir fleiri. Enn eru mestar líkur á að hraun renni til suðurs og þar með yfir Suðurstrandarveg. Enn er virkni fjarri íbúðarbyggð. Ef til tíðinda dregur er gott að hafa þetta kort í huga og varast þau svæði er sýna dekkstan lit á fyrstu klukkustundum eldgoss.“