Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að skipun Steinbergs Finnbogasonar sem verjanda Íslendings, sem er sakborningur í Rauðagerðismálinu, var afturkölluð.
Þetta staðfestir Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði kröfu um þetta á grundvelli þess að Steinbergur kynni að búa yfir upplýsingum um málið, öðrum þeim en eru bundin trúnaði vegna starfa hans fyrir sakborninginn, og hann kynni að vera kallaður inn sem vitni í málinu.
„Ég get fullyrt að ég bý ekki yfir neinni slíkri vitneskju eða neinni annarri vitneskju sem gæti verið undanþegin trúnaðarskyldu á nokkurn hátt,“ sagði Steinbergur í samtali við mbl.is fyrr í vikunni eftir að úrskurður héraðsdóms lá fyrir.