Úthlutað hefur verið úr húsafriðunarsjóði og nema úthlutanir ársins 305 milljónum króna, en sótt var um rétt ríflega 1,5 milljarða króna. Fjöldi umsókna var 361 og aldrei hafa borist fleiri umsóknir.
Nefna má að til verkefna við friðlýstar kirkjur eru veittar 79 milljónir, 66,7 milljónir til friðlýstra húsa og til friðaðra húsa var úthlutað 134,7 milljónum.
Af einstökum úthlutunum var hæstu upphæðinni, sex milljónum króna, úthlutað vegna Grænavatnsbæjarins í Mývatnssveit. Fimm milljónir króna fara til Akraneskirkju, Silfrastaðakirkju og vegna hússins að Laxabakka við Sogið. Fjórum milljónum er úthlutað vegna verkefna við Hljómskálann í Reykjavík og sömu upphæð til Bakkaeyrar í Borgarfirði eystri.
Þá er þremur milljónum úthlutað til Fífilbrekku við Reyki í Ölfusi og 3,5 milljónum vegna gróðurhúss á sama stað. aij@mbl.is