„Fyrir mér er þetta sigur nú þegar“

Guðmundur Felix og eiginkona hans, Sylwia Gretarsson Nowakowska.
Guðmundur Felix og eiginkona hans, Sylwia Gretarsson Nowakowska. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk grædda á sig handleggi í Lyon í Frakklandi í byrjun árs, er bjartsýnn á að hann muni geta notað handleggina að einhverju leyti, sérstaklega þann hægri, þegar fram líða stundir. Nú, um tveimur mánuðum eftir að aðgerðin var framkvæmd, kveðst Guðmundur ánægður með að hafa látið verða af henni. Hann segir einn af stærstu sigrunum þann að líða eins og hann sé orðinn heill maður á nýjan leik. 

„Ég er mjög vongóður um að ég muni geta eitthvað gert með höndunum,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. 

Hann er nú í stífri endurhæfingu en fékk um helgina dagsleyfi frá prógramminu og gat þá farið heim til sín í fyrsta sinn frá aðgerðinni. Endurhæfingin er í raun full vinna, hún hefst um klukkan átta á morgnanna og stendur yfir til hálf fjögur eða hálf fimm. Guðmundur segist feginn að vera kominn í þessa rútínu þó hún geti verið strembinn. 

„Maður var orðinn ferlega leiður á því að sitja bara inni í herbergi og bíða. Sérstaklega síðustu vikuna á hinum spítalanum þegar maður fann að maður var alveg tilbúinn að komast á fætur,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur Felix ásamt Aram Gazarian skurðlækni sem hefur fylgt Guðmundi …
Guðmundur Felix ásamt Aram Gazarian skurðlækni sem hefur fylgt Guðmundi allt ferlið. Ljósmynd/Aðsend

Þyngdarpunkturinn týndur

Endurhæfingarmiðstöðin sem hann dvelur á núna er á fallegum stað og hefur Guðmundur útsýni yfir stóran garð. Þá er mikil ró á staðnum. Stefnt er að því að fljótlega muni Guðmundur geta mætt í endurhæfingu á morgnanna og farið svo heim seinni partinn en enn sem komið er dvelur hann stærstan part sólarhringsins á endurhæfingarmiðstöðinni. Í dag fékk hann þó að snúa heim í dagsleyfi í fyrsta sinn frá aðgerðinni. 

Eitt af því sem endurhæfingin beinist að er þyngdarpunktur Guðmundar, sem hann segist alveg búinn að týna.

„Ef ég loka augunum þá bara fell ég eins og spýta. Það eru alls konar svona litlir hlutir sem maður er að reyna að átta sig á,“ segir Guðmundur. 

„Við litum á þetta þannig að aðgerðin væri þess virði …
„Við litum á þetta þannig að aðgerðin væri þess virði að fara í hana ef ég get hreyft olnbogana,“ segir Guðmundur. „Allt annað er bara bónus.“ Ljósmynd/Aðsend

Örva vöðvana með raflosti

Gæði endurhæfingarinnar skipta miklu máli fyrir framhaldið hjá Guðmundi. Hann er bjartsýnn á endurhæfinguna sem hann segir upp á tíu. Hún felst t.a.m. í þjálfun vöðvanna 90 sem umkringja axlirnar tvær. Þá hreyfa sjúkraþjálfarar alla liði í handleggjum Guðmundar og passa upp á að ekkert stirðni upp. Þá fær Guðmundur reglulega rafmeðferð.

„Þá setja þeir rafskaut á hendurnar og örva vöðvana með raflosti, til þess að viðhalda þeim eitthvað svo þeir rýrni ekki eins hratt,“ segir Guðmundur. 

Engin virkni er komin í handleggina sjálfa sem eru býsna þungir. Þeir þurfa að vera reyrðir upp til þess að draga úr líkunum á því að Guðmundur detti úr axlarlið. 

„Það sem á að vera að gerast er að taugarnar mínar eru að vaxa millimetra á dag. Það eru ákveðnir  stofnar sem ganga niður í handleggina. Mér finnst eins og ég finni  fyrir einhverju aðeins fyrir neðan þar sem ég var saumaður inni í handleggnum, inni þar sem beinið og allt það er,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur Felix skömmu eftir að aðgerðin var framkvæmd í janúarmánuði. …
Guðmundur Felix skömmu eftir að aðgerðin var framkvæmd í janúarmánuði. Hún var fyrsta aðgerð sinnar tegundar á heimsvísu og hafði Guðmundur beðið hennar í mörg ár.

Aðgerðin sannarlega þess virði

Hann líkir vexti tauganna við tré. Fyrst vex stofninn niður um millimetra á dag en út frá honum vaxa greinar, litlir fálmarar sem fara út í húðina og vöðvana. Guðmundur fær því fyrst tilfinningu inni í handleggjunum en síðar fær hann tilfinningu í húð og vöðva. 

Aðspurður segir Guðmundur enn erfitt að segja hversu stóran hluta handleggjanna hann muni geta notað að lokum. 

„Við litum á þetta þannig að aðgerðin væri  þess virði að fara í hana ef ég get hreyft olnbogana,“ segir Guðmundur. „Allt annað er bara bónus.“

Spurður hvort honum þyki strax núna að aðgerðin hafi verið þess virði segir Guðmundur:

„Fyrir mér er þetta sigur nú þegar. Svo er það þessi sálræni faktor líka, að vera heill. Það er enginn smá faktor.“

Ertu strax farinn að upplifa það? 

„Algjörlega. Að sjá spegilmyndina af mér, að sitja í stól með hendurnar í kjöltunni. Þetta er ekki eins og fegrunaraðgerð, þetta er miklu stærra. Þetta er að vera orðinn eins og manneskja aftur, ekki eins og kókflaska.“

Meginþættirnir upp á tíu

Þrír meginþættir stjórna því hvort allt saman takist vel upp. Í fyrsta lagi gæði útlimanna sem græddir voru á Guðmund, en þau voru mikil, í öðru lagi gæði endurhæfingarinnar sem Guðmundur undirgengst, en þau eru mikil, og í þriðja lagi lyf sem Guðmundur tekur sem örvar taugavöxt. 

„Þetta þrennt segja þeir að séu stærstu faktorarnir til að láta þetta ganga vel og þeir eru allir upp á tíu,“ segir Guðmundur. 

Gefur öðrum von

Fólk víðsvegar um heim hefur sýnt áhuga á ferlinu þó Guðmundur finni fyrir mestum áhuga og stuðningi frá Íslendingum. Sérstaklega er áhugi frá Suður- og Mið-Ameríku áberandi. Þá fylgjast margir með sem hafa misst útlimi eða eiga ástvini sem hafa lent í slíku. Aðspurður segir Guðmundur að ferlið gefi mörgum von. 

„Algjörlega. Það er að gefa þeim von, annars hefðu þau ekki samband. Það eru alveg ótrúlega margir sem hafa misst einhverja útlimi. Þetta er gríðarlegur fjöldi af fólki á heimsvísu þó þetta sé kannski ekki há prósenta.“

Guðmundur segir að stuðningurinn frá Íslendingum sé ómetanlegur. 

„Það munar rosalega mikið um að finna svona stuðning, sérstaklega svona á erfiðu dögunum; þá verður það enn mikilvægara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert