Hættur geta leynst á hálendinu vegna hláku

Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Snjóbíll Flugbjörgunarsveitar Reykjavíkur fór niður um ís við Hnausapoll snemma í morgun. Engan sakaði en nú vinna björgunarsveitarmenn að því að koma bílnum aftur upp á fast land. Upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir hættur geta leynst víða á hálendinu vegna hláku.

„Þau voru þarna í æfingarferð með sínu fólki og lentu í þessu óhappi þegar þau keyrðu yfir stað þar sem er lægð í landslaginu við hnausapoll. Ísinn gaf sig og bíllinn þá pompaði niður í vatnið sem er þá hálfgert leysingarvatn sem hefur verið að myndast út af þessari hlákutíð sem varð hérna um daginn,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. 

Vísir greindi fyrst frá. 

Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Mikil traffík á hálendinu

„Fólk þarf að hafa varann á þar sem það er að keyra eftir kortum og sér að það eru lægðir í landslaginu. Þessar aðstæður gætu myndast,“ segir Davíð. 

Björgunarsveitin hafði farið í útköll um nóttina og segir Davíð greinilega mikla traffík á hálendinu. 

Nú vinna björgunarsveitir að því að koma snjóbílnum upp, t.a.m. með tveimur öðrum snjóbílum. Spurður hvort það sé ekki hættusvæði víðar í kringum pyttinn segir Davíð að björgunarsveitafólk hafi fengið mikla þjálfun í því að bregðast við erfiðum ástæðum. Þá vinni það eftir þeirri einföldu reglu að setja öryggi sitt alltaf í fyrsta sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert