Hjörvar og Hannes tefla til úrslita

Helgi Áss Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson.
Helgi Áss Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson. Ljósmynd/Aðsend

Svo fór að tveir stigahæstu skákmenn landsins, Hjörvar Steinn Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson tefla til úrslita um sigurinn í Íslandsbikarnum.

Í gær var teflt til þrautar í báðum einvígjum undanúrslita. Til að byrja í gær voru tefldar tvær atskákir (25+10). Svo fór að Hjörvar Steinn vann þær báðar gegn okkar nýjasta stórmeistara, Guðmundi Kjartanssyni. Í fyrri skákinni með snjallri skiptamunsfórn í endatafli og í þeirri síðari sem var lengi jafnteflisleg en þar sem Guðmundur reyndi allt til að reyna að hræra upp í stöðunni og tapaði um síðir. Lokastaðan því 3-1 að því er segir í tilkynningu.

Helgi Áss Grétarsson vann fyrri atskákina gegn Hannesi og var því kominn í 2-1. Hannes sýndi allar sínar bestu hliðar í skák nr. 2 og yfirspilaði Helga. Staðan því 2-2 og aftur þurfti að framlengja. Tíminn styttur og tefldar tvær atskákir en þó með styttri umhugsunartíma (10+10). Þær vann Hannes báðar. Þá fyrri reyndar eftir að hafa haft koltapað tafl en þá síðari örugglega. Lokastaðan því 4-2.

Fyrri skák Hjörvars og Hannesar fer fram í dag kl. 14. Dregið var um liti í gær og hefur Hannes hvítt í fyrstu skákinni. Síðari skákin verður tefld á morgun kl. 14. Verði jafnt, 1-1, verður teflt til þrautar á mánudaginn, kl. 17.

Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson verða með skákskýringar sem hefjast um kl. 15. Skákáhugamönnum er bent á skak.is þar sem hægt verður að fylgjast með úrslitaeinvíginu.

Guðmundur Kjartansson og Hjörvar Steinn Grétarsson.
Guðmundur Kjartansson og Hjörvar Steinn Grétarsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert