Björn Þorláksson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, hefur ákveðið að höfða dómsmál gegn Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra vegna ákvörðunar Sigrúnar Ágústsdóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar (UST), um að segja Birni upp starfi fyrr á árinu samfara niðurlagningu starfs hans. Uppsögnin brjóti gegn lögum.
Lögmaður Björns, Jón Sigurðsson, sendi fyrir hönd Björns og stéttarfélags hans, Fræðagarðs, bréf til forstjóra UST í febrúar þar sem þess var krafist að fallið yrði frá niðurlagningu á starfi Björns tafarlaust og honum boðið starfið að nýju. Að öðrum kosti væri UST krafin um fébætur vegna þess tjóns sem hann óhjákvæmilega verður fyrir vegna starfsmissis af völdum ólögmætra ákvarðana stofnunarinnar.
Í samtali við mbl.is segir Jón að einu viðbrögðin sem hafi borist sé að kröfunni sé hafnað. Því sé ekki annað í boði en að fara með málið fyrir dóm og það verði að vera gegn umhverfisráðherra þar sem hann fari með fyrirsvar fyrir stofnunina fyrir dómi.
Í bréfi Jóns til forstjóra UST kemur fram að ákvörðunin og málsmeðferðin í aðdraganda hennar standist enga skoðun, feli í sér lögleysu og beri jafnframt vott um þá fyrirætlan Umhverfisstofnunar frá upphafi að bola Birni Þorlákssyni úr starfi.
Björn starfaði hjá UST í ríflega fjögur ár og var valinn úr hópi 80 umsækjenda á sínum tíma en hann hafði þá starfað um árabil við fjölmiðla, meðal annars sem fréttastjóri og ritstjóri. Björn segir að hann og Kristín Linda Árnadóttir, sem var forstjóri á þeim tíma, hafi starfað saman sem einn maður uns hún hætti. Bar þar aldrei skugga á segir Björn.
Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti núverandi forstjóri Umhverfisstofnunar, Sigrún Ágústdóttir, Birni með bréfi 19. nóvember um breytingar á starfi hans og verkefnum. Í bréfinu er tilkynnt um verulegar breytingar á starfinu, verkefnaskipulagi þess og áherslum tengdum starfi upplýsingafulltrúa, samhliða því að ekki yrði ráðið í 1,5 stöðugildi tengd fræðslu og upplýsingamiðlun hjá stofnuninni. Sérstaklega er tiltekið í bréfinu að breytingin komi til „vegna almennrar aðhaldskröfu fyrir rekstur stofnunarinnar og aukinnar áherslu ríkisstjórnarinnar á starfræna þróun“.
Í tilkynningunni eru útlistaðar m.a. breytingar varðandi samskipti við fjölmiðla, aðkeypta ráðgjöf, ritstjórn og útgáfu ársskýrslu. Sérstaklega er tekið fram að ný starfslýsing hafi verið skilgreind og að þar hafi verið „felld saman verkefni tengd fræðslu- og miðlunarhlutverki stofnunarinnar með aukinni áherslu á stafræna miðlun, þróun þeirra og markaðsstarf“.
Jón telur ljóst að virtum málsatvikum í heild sinni að á þessum tímapunkti hafi þegar verið búið að taka ákvörðun um starfslok Björns, hvernig svo sem þau kæmu á endanum til framkvæmda. Í bréfinu hafi verið talað um að breyta starfi hans en í sama bréfi er þess krafist að Björn fari í hæfnismat. Öðrum kosti verði honum sagt upp starfi.
„Hæfismat af þessu tagi er ekki gert nema verið sé að ráða inn í nýtt starf eða velja úr hópi starfsmanna sem þola eiga starfsmissi vegna t.d. hagræðingaraðgerða. En þarna er verið að meta Björn einan, meta hvort hann standist í raun yfir höfuð kröfur um að gegna þessu starfi,“ segir Jón.
Þrátt fyrir það er Björn í upphafi matsskýrslu ráðgjafarfyrirtækisins, dags. 27. nóvember 2020, titlaður sem „umsækjandi“. Sú nafngift verði ekki túlkuð öðruvísi en að ráðgjafarfyrirtækið hafi metið Björn eins og umsækjanda um starf, og þar að auki um allt annað starf en hann gegndi, og starf sem ekki einu sinni hafði verið auglýst laust til umsóknar, hvað þá að Björn hafi verið umsækjandi.
„Skýrslan er þegar af þeirri ástæðu einni algjörlega ómarktækt gagn og verður ekki beitt til stuðnings meintri niðurlagningu á allt öðru starfi síðar. Það athugast einnig að ekki var í hæfnismati verið að meta Björn til samanburðar við aðra starfsmenn sem vinna hliðsett störf innan Umhverfisstofnunar. Við þetta bætist að hæfnismatið snýr ekki að því að meta hvort leggja beri niður það starf sem Björn gegndi. Björn gegndi starfi upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, en hæfnismatið er um „starf sérfræðings í stafrænni þróun í fræðslu og miðlun“, “ segir í bréfi Jóns til forstjóra UST.
Að sögn Jóns reyndi forstjóri UST að losna við Björn í desember með því að bjóða honum starfslokasamning 7. desember sem hann hafnaði. Þetta sýni glögglega að búið var að taka ákvörðun um að segja Birni upp störfum hvað sem öðru liði enda tilboðið lagt fram löngu áður en niðurstaða hæfnismats lá fyrir.
„Umrætt hæfnismat hefur ekkert gildi og um leið er ákvörðun um meinta niðurlagningu á starfi Björns ólögmæt, af þeirri ástæðu að í boði um hæfnismatið, sbr. framangreint bréf dags. 19. nóvember sl., er í engu vikið að því að matið sé unnið með það í huga að leggja niður starf Björns eða segja honum upp störfum, hvað þá að vikið sé með neinum hætti að því að niðurstaða hæfnismats geti mögulega leitt til þeirrar niðurstöðu“, segir í bréfi sem Jón ritaði í febrúar til forstjóra UST, Sigrúnar Ágústsdóttur.
„Í ljósi þessa skorts á upplýsingum um raunverulegan tilgang hæfnismats í bréfinu, gat honum aftur á móti ekki runnið til hugar að hæfnismatið og svörun hans í því gæti leitt til þess að starf hans yrði lagt niður og honum sagt upp störfum, svo sem síðar kom á daginn.
Að mati umbj. míns var hæfnismatið því vísvitandi fyrir fram búið í þann búning af hálfu Umhverfisstofnunar, að eiga við um þegar tilkynntar breytingar, þegar að í engu var upplýst um raunverulegan tilgang þess, að nota það til réttlætingar á því að leggja niður starfið sem Björn gegndi.
Umhverfisstofnun er stjórnvald og ber samkvæmt stjórnsýslulögum að veita starfsmanninum allar tilheyrandi upplýsingar þar að lútandi, sérstaklega í ljósi þess hversu verulega íþyngjandi niðurstaða um starfsmissi gæti orðið fyrir Björn. Að upplýsa starfsmanninn ekki réttilega um tilgang matsins þverbraut lög, sbr. t.d. upplýsingareglu 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Rétt er að taka fram að Björn samþykkti þátttöku í hæfnismatinu með skriflegum fyrirvara um lögmæti matsins. Sætir furðu að forstjóri Umhverfisstofnunar kjósi að nefna fyrirvarann ekki einu orði í þeim hluta rökstuðningsbréfs, hvar hún fjallar um tilkynningu Björns um þátttöku í hæfnismatinu. Þar sem hvorki forsendur né lagaheimild stóðu til hæfnismatsins hefur þátttaka Björns í því ekkert vægi, sbr. fyrirvarann sem Björn gerði.
Í hæfnismatinu lýsti Björn því yfir að hann væri undir miklu andlegu álagi, liði illa og að hann liti svo á að niðurstöður úr samtalinu gætu ekki verið marktækar. Á þeim tímapunkti í hæfnismatinu hefði ráðgjafarfyrirtækinu, sem ber sambærilegar skyldur og stjórnvald að lögum við framkvæmd mats af þessu tagi, borið á grundvelli meðalhófs að stöðva hæfnismatið og hið minnsta fresta framkvæmd þess. Ekki var hirt um þetta, heldur framkvæmd matsins fram haldið og lokið við það á umræddum fundi,“ segir enn fremur í bréfinu sem Jón sendi til forstjóra UST.
Jón segir að á meðan Björn gegndi starfi upplýsingafulltrúa hafi hann verið ritstjóri vefjar UST og eins umsjónarmaður og ritstjóri Facebook-síðu stofnunarinnar sem fái allt að 100 þúsund heimsóknir á viku. Jafnframt hafi hann sótt sér menntun á þessu sviði með því að sitja námskeið um notkun á Facebook. „Þannig að reynsla hans og þekking á sviði stafrænnar þróunar er ótvíræð,“ segir Jón.
Um áramót er ráðinn inn starfsmaður til að sjá um miðlun upplýsinga sem var hluti af starfslýsinu Björns. Síðan reynir stofnunin að halda því í fram í rökstuðningsbréfi til Björns í febrúar að ekki hafi verið ráðið í störf stafrænnar þróunar og að starfið yrði ekki auglýst. Síðan er búið að auglýsa þetta starf allt í einu núna laust til umsóknar, segir Jón í samtali við mbl.is.
„Áformin áður en allt þetta byrjar eru að okkar mati augljóslega þau að losna við Björn úr starfi. Fyrst er farið í vegferð sem byrjar á tilkynningu um breytingar á starfi, síðan hæfnismat og síðan þegar það liggur fyrir og forstjóri hefur ekki náð fram starfslokum með samningi þá allt í einu er grípið til þess að leggja niður starfið,“ segir Jón en málið er höfðað til að heimta fébætur vegna ólöglegrar niðurlagningar á starfi.
Tjón Björns vegna starfsmissisins er mjög verulegt segir í bréfi Jóns til forstjóra UST. Björn er búsettur á Akureyri og á því verulega örðugt um vik að finna þar vinnu við hæfi, þar sem starfssvið hans er mjög sérhæft. Ekki bætir úr skák það ástand sem ríkir á vinnumarkaði þessi misserin. Fyrirséð er því að ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfslokin hafi þau áhrif að Björn og fjölskylda hans neyðist til að flytja búferlum til þess að auka möguleika á því að finna vinnu við hæfi, sem mun leiða til verulegs fjárhagslegs tjóns fyrir hann.
„Umbj. minn [Björn Þorláksson] hafnar því að röksemdir um almenna aðhaldskröfu fyrir Umhverfisstofnun geti réttlætt ákvörðun um meinta niðurlagningu starfs upplýsingafulltrúa. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu stofnunarinnar sem sýna fram á beinar niðurskurðarkröfur í fjárlögum fyrir árið 2021, sem varpa ljósi á skert fjárframlög til stofnunarinnar, hvað þá í þeim mæli sem haldið er fram.
Samkvæmt upplýsingum umbj. míns hefur Umhverfisstofnun venjulega mætt aðhaldskröfum, hafi þær á annað borð raunverulega verið gerðar, með því að ráða ekki í störf sem losna. Segir það sig sjálft að slík úrlausn er einföld þegar litið er til árlegrar starfsmannaveltu í 100 manna ríkisstofnun.
Þær fjárhæðir sem tíndar eru til sem meint aðhaldskrafa í bréfi Umhverfisstofnunar eru ekki ýkjaháar í samanburði við þá fjármuni sem stofnunin veltir árlega. Að mati umbj. míns kemur spánskt fyrir sjónir, að svo lítilli aðhaldskröfu í fjárhæðum litið skuli að meirihluta til vera ætlað að vera mætt með niðurskurði launakostnaðar, fremur en annars kostnaðar, sem væri hægðarleikur að ná fram í þetta stórri ríkisstofnun.
Enn fremur verður að telja einkennilegt að þetta litlir fjármunir í heildar samhenginu skuli þurfa að leiða til meintrar niðurlagningar á einungis einu starfi að þeim 100 stöðugildum sem eru innan stofnunarinnar. Röksemdafærslan hvað þetta varðar er því afar ótrúverðug og gengur trauðla upp að teknu tilliti til almennra rekstrarforsendna að mati umbj. míns,“ segir í bréfinu sem Jón ritaði til Umhverfisstofnunar fyrir hönd Björns í febrúar.
Þar hefur Jón eftir Birni að hann telji að ýmislegt í rökstuðningsbréfi Umhverfisstofnunar fyrir ákvörðuninni, dags. 27. janúar 2021, beri vott um að bréfritari, forstjóri stofnunarinnar, hafi afar takmarkaða þekkingu á þeim verkefnum sem Björn hefur sinnt í sínu starfi hjá stofnuninni.
„Sennilega sé skýringu þess að leita í því að fyrri forstjóri hafi haft mikil og tíð samskipti við Björn vegna einstakra verkefna, en þeim þræði hafi nánast algjörlega verið slitið með tilkomu núverandi forstjóra. Líklega skýringu þess sé að leita í því að Björn hafi verið með starfsstöð á Akureyri, en ekki í Reykjavík, hvar forstjórinn starfar.
Að mati umbj. míns er rökstuðningsbréfið, sem forstjórinn ritar, litað af þessari vanþekkingu á störfum Björns og eru víða í bréfinu færðar fram rangfærslur af þessum sökum. Björn hefur í starfinu sínu sem upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar verið alltaf á bakvakt, reiðubúinn að bregðast þá þegar við ef upp koma mál sem krefjast viðbragða stofnunarinnar opinberlega og miðlun upplýsinga til fjölmiðla. Þeirrar staðreyndar sér ekki stað í rökstuðningsbréfi,“ segir enn fremur í bréfinu.