„Unnið verður að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu,“ segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2017. Það er hálft ár í kosningar og enn hefur ekki skýrst í hverju þessi lausn mun felast.
Menntamálaráðuneytið lofar nú að ákvörðun liggi fyrir áður en kjörtímabilinu lýkur.
Tvennt kom til greina eftir frumathugun sem var kynnt síðasta vor eftir tveggja ára vinnu. Að núverandi húsnæði í Laugarnesi yrði endurbyggt og hannað í samræmi við þarfir sameinaðs skóla, eða að ný bygging fyrir heildarstarfsemina rísi í Vatnsmýri.
Það er laus lóð á svæði Háskóla Íslands, við hlið Öskju, jarðvísindabyggingar háskólans, og á móti Íslenskri erfðagreiningu, sem sérstaklega hefur verið skoðuð í þessu samhengi. Bæði Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands eru reiðubúin að láta LHÍ hana í té.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, segir við mbl.is að skólinn sé vissulega orðinn óþreyjufullur eftir svörum frá stjórnvöldum, því óvissa síðastliðinna tuttugu ára taki mjög á og hamli þeim slagkrafti sem í skólanum býr.
Um lóðina í Vatnsmýri segir Fríða: „Við gætum sannarlega notið okkar í Vatnsmýri í samlegð við annað háskólastarf í landinu. Ég held að við myndum njóta góðs af því og að við ættum vel heima þar. En ef sú lausn hentar ekki stjórnvöldum, er heldur ekki loku fyrir það skotið að við getum mátað okkur annars staðar. Mestu skiptir að fá faglega lausn sem allra fyrst.“
Frá stofnun hefur áherslan verið að koma skólanum í faglegt húsnæði, eins og Fríða bendir á. Síðan eru liðnir tveir áratugir án lausnar.
Í skriflegu svari frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til mbl.is segir að á síðustu vikum hafi farið fram mikil vinna í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og forsætisráðuneytið við að skoða og greina húsnæðiskosti fyrir LHÍ.
„Unnið er að því að fyrir liggi ákvörðun um framtíðarlausn á húsnæðismálum Listaháskólans í samræmi við stjórnarsáttmálann á þessu kjörtímabili,“ segir í svarinu.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segist myndu fagna því að fá LHÍ á háskólasvæðið. Reiturinn við Öskju er að sögn Jóns frátekinn fyrir LHÍ ef vilji stjórnvalda stendur til þess.
„Við höfum ekkert komið að þessu máli með staðsetningu LHÍ en við fögnum öllu samstarfi við skólann. Það er eitthvað sem við teljum mjög jákvætt að LHÍ komi á svæði Háskóla Íslands. Lóðin sem um ræðir tilheyrir Háskóla Íslands, en á henni er þó sú kvöð að LHÍ hefur þarna forgang ef ákvörðun verður tekin um að hann komi,“ segir Jón Atli.
Ekkert augljóst stendur í vegi fyrir byggingu nýs listaháskóla í Vatnsmýri og risi hann á umræddri lóð, væri hann í góðum félagsskap. Síðast í vikunni var verið að undirrita samning um meiri háttar samstarfsvettvang ólíkra stjórnsýslueininga um þróttmikið Vísindaþorp í Vatnsmýrinni, eins og það er kallað.
Aðrir kostir en Vatnsmýrin eru einnig til skoðunar, þar sem einnig kemur til greina að reist verði ný heildareining fyrir skólann. Þær hugmyndir hafa þó ekki farið í gegnum frumathugun hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.