Lögreglan þurfti að hafa afskipti af veitingastað í Kópavoginum í nótt vegna brota á sóttvarnalögum og lögum um veitingahús. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var lítið um sóttvarnir á staðnum og reglur um lokunartíma ekki virtar.
Flytja þurfti mann sem féll af rafhjóli eftir að hafa hjólað á kantstein um áttaleytið í gærkvöldi í Austurbænum (hverfi 105). Maðurinn var með áverka í andliti og eins brotnaði tönn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar.
Annað reiðhjólaslys varð síðdegis í gær í Hafnarfirðinum en þar féll maður af hjóli, steypist fram fyrir sig og skall í götuna. Maðurinn var með áverka á höfði og öxl. Hann var einnig fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann.
Lögreglan fékk tilkynningu um umferðaróhapp í Kópavoginum (hverfi 201) skömmu eftir miðnætti en ekki urðu slys á fólki. Tjónvaldur var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og var að lokinni sýnatöku vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir í nótt af lögreglu á Kjalarnesi. Annarri bifreiðinni var ekið á 116 km hraða en hinni á 117 km hraða. Hámarkshraði er 80 km/klst. á þessum stað. Ökumennirnir játuðu brot sín og voru skýrslur ritaðar á vettvangi.
Tilkynnt var til lögreglu um þjófnað úr bifreið í miðborginni í gærkvöldi en búið var að stela bakpoka, tösku og tveimur tölvum úr bifreiðinni.
Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Austurbænum (hverfi 108) í nótt en tveir menn voru í bifreiðinni. Þeir eru báðir grunaðir um ölvun við akstur þar sem farþeginn er talinn hafa skipt um sæti við ökumann við stöðvun ökutækis. Einnig grunur um akstur án réttinda þ.e. sviptur ökuréttindum, ekki sagt til nafns og rangar yfirlýsingar hjá stjórnvaldi. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir tímabilið frá klukkan 17 í gær þangað til 5 í morgun.
För fjögurra ökumanna til viðbótar var stöðvuð í gær og í nótt en þeir eru grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna og einn var án ökuréttinda.