Sýning á ljósmyndum Þorkels Þorkelssonar frá Eþíópíu og Úganda stendur nú yfir í Smáralindinni fyrir atbeina Hjálparstarfs kirkjunnar en Þorkell hefur verið duglegur að fylgjast með starfinu á þessum slóðum á seinustu árum. Tilefnið er fimmtíu ára afmæli stofnunarinnar.
Glaðbeitt börn á skólabekk. Kona á gangi í eyðimörkinni. Búfénaður að svala brennandi þorstanum. Vandvirkur hárgreiðslumaður. Konur að dæla vatni upp úr brunni. Áhugasamir piltar að læra tölvuviðgerðir. Það kennir margra grasa á ljósmyndasýningu Þorkels Þorkelssonar í Smáralindinni en hún er afrakstur heimsókna hans til Eþíópíu og Úganda á síðustu árum í tengslum við þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar á þessum stöðum.
Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, er hæstánægður með samstarfið við Þorkel. Bjarni og samstarfsfólk hans hefur verið duglegt að taka ljósmyndir í heimsóknum sínum til Eþíópíu og Úganda en hann segir mann eins og Þorkel, sem býr að áratugareynslu sem fréttaljósmyndari, koma með miklu meiri dýpt inn í myndirnar. „Við erum Þorkeli mjög þakklát fyrir hans framlag. Hann á heiður skilinn,“ segir Bjarni en Hjálparstarfi kirkjunnar er frjálst að nota myndir Þorkels að vild. „Myndir hans segja lifandi sögu og það er frábært að geta sett upp svona sýningu sem kynnir verkefnin okkar í Afríku fyrir Íslendingum frá víðara sjónarhorni. Vonandi er þetta bara fyrsta sýningin af mörgum á myndum Þorkels en hugur okkar stendur til að setja upp fleiri sýningar í kirkjum, safnaðarheimilum og mögulega víðar.“
Það eru ekki bara myndirnar. „Glöggt er gests augað og það hefur verið gagnlegt fyrir okkur að fá sýn Þorkels á þessi verkefni. Hann féll strax fyrir Eþíópíu þegar hann kom fyrst þangað fyrir meira en tuttugu árum og er farinn að þekkja vel til okkar starfs á þessum slóðum,“ segir Bjarni.
Tilefni sýningarinnar er að á síðasta ári voru fimmtíu ár liðin frá því að Hjálparstarf kirkjunnar var sett á laggirnar. Til stóð að halda sýninguna þá en henni var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, eins og svo mörgu. Sjálfur var Bjarni á leið til Eþíópíu þegar faraldurinn skall á í fyrra en þurfti að hætta við för sína. Hann komst að vonum ekkert utan á síðasta ári en gerir sér vonir um að geta heimsótt landið seint á þessu ári eða snemma á því næsta.
Bjarni og fleiri starfsmenn Hjálparstarfsins fara reglulega utan til að fylgjast með gangi mála í Eþíópíu og Úganda og segir hann bæði verkefnin ganga ljómandi vel. Það megi glöggt sjá á fyrir-og-eftir-myndum Þorkels sem til dæmis sýni brunn á svæði þar sem áður var brakandi þurrkur. Oft þarf ekki mikið til að auka lífsgæði fólksins á þessum stöðum.
„Stærsta verkefnið okkar er í Sómalífylki í Eþíópíu en það hefur staðið í tíu ár og er stutt af utanríkis- og þróunarsamvinnuráðuneytinu. Við byrjuðum í Jijigahéraði og hefur verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar náð þar beint og óbeint til 130 þúsund manns og breytt lífi þeirra til hins betra. Fyrir þremur árum hófum við samstarfsverkefni í nágrannahéraðinu Kebri Beyah sem er austur af Jijica en það snýst sem fyrr um fæðuöryggi, aðgang að vatni og valdeflingu kvenna,“ segir Bjarni.
Hann kveðst sjá mun frá ári til árs en unnið er út frá sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, fólkið á svæðinu á sjálft að taka verkefnið yfir og bera ábyrgðina. Bjarni nefnir sem dæmi að konur í héraðinu hafi mestmegnis notað tíma sinn í að sækja vatn og eldivið, sinna börnum og elda mat, en í framhaldi af námskeiðum sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur gengist fyrir um sparnað og smærri viðskipti séu þær í auknum mæli farnar að afla tekna sem þær fá sjálfar að ráða yfir. „Áður voru þær alfarið háðar eiginmanni sínum um fjármuni. Þetta gerir það að verkum að þær verða smám saman sjálfstæðari.“
Annað verkefni er í þremur fátækrahverfum í Kampala, höfuðborg Úganda, en þar hefur Hjálparstarf kirkjunnar sett upp verkmenntasmiðjur fyrir ungmenni á aldrinum 14 til 24 ára. Mikið atvinnuleysi er í þessum hverfum og margir hafa komið utan af landi í von um vinnu. Þess í stað lendir fólk gjarnan í atvinnuleysi og leiðist jafnvel út í glæpi og/eða vændi. Smiðjunum er ætlað að hjálpa fólki að koma undir sig fótunum en þar má meðal annars læra hárgreiðslu, þjónustustörf, tölvu- og farsímaviðgerðir og klæðskurð. Í framhaldi af námskeiðunum er fólk síðan aðstoðað við að komast í starfsnám.
„Einnig er mikilvægt að fræða fólk um kynheilbrigði, getnaðarvarnir, réttindi, heilsu og fleira. Markmiðið er að fá 500 ungmenni í smiðjuna á ári enda er fátæktin oft og tíðum síst minni í borgunum en á landsbyggðinni,“ segir Bjarni.
Sýningu Þorkels lýkur nú á sunnudaginn.
Nánar er fjallað um hjálparstarfið og rætt við Bjarna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.