Segulharpa Úlfs verðlaunuð

Úlfur Hansson tónskáld og hljóðlistamaður.
Úlfur Hansson tónskáld og hljóðlistamaður. Ljósmynd Elísabet Davíðsdóttir

Úlfur Hansson tónskáld og hljóðlistamaður er handhafi verðlauna Guthmann Musical Instrument-samkeppninnar sem haldin er árlega í Bandaríkjunum. Verðlaunin vinnur Úlfur fyrir segulhörpu, hljóðfæri sem hann hefur verið að þróa undanfarin ár, m.a. fyrir styrk sem hann hlaut frá Rannís.

Um er að ræða virta hátíð á sviði nýsköpunar í tónlist, en verðlaunin eru veitt einum listamanni ár hvert.

Í dómnefnd sátu meðal annars Dave Smith (stofnandi Sequential Circuits), tónlistarmaðurinn DJ Spooky, Jayson Dobney og Kaki King.

Segulharpan er þróuð af Úlfi Hanssyni.
Segulharpan er þróuð af Úlfi Hanssyni. Ljósmynd Elísabet Davíðsdóttir

„Guthmann Musical Instrument-samkeppnin, sem er sú eina af sínu tagi í heiminum, nýtur mikillar virðingar meðal þeirra sem fremstir eru í flokki nýsköpunar á sviði tónlistar,“ segir í tilkynningu.

Skipuleggjendur fengu kvikmyndaframleiðsluteymi frá Atlanta til að vinna heimildaþátt um Úlf og hans listrænu sýn í hljóðfærahönnun og raftónlistarsköpun og verður þátturinn sýndur á hátíðinni í dag. Auk Úlfs mun Kristín Anna Valtýsdóttir koma fram í þættinum, en hún spinnur tónlist á segulhörpuna af þessu tilefni. Björk Guðmundsdóttir er meðal þeirra sem hafa notað hörpuna en Björk var með hana í verkefni sínu Cornucopia. 

New York Times fjallar um segulhörpu Úlfs í blaðinu í dag.

Úlfur hefur notið margvíslegra viðurkenninga fyrir list sína undanfarin ár. Hann hlaut m.a. verðlaun sem tónskáld ársins í alþjóðlegu keppninni International Rostrum of Composers fyrir verk sitt So very strange, árið 2013, en hann var þar tilnefndur af RÚV. Verkið var samið fyrir eldri prótótýpu af segulhörpunni. Hann hlaut einnig Rannís-styrk fyrir þróun hljóðfærisins, auk Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Úlfur hefur verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna sem „bjartasta vonin“, hann hefur samið tónverk til flutnings fyrir Tectonics-hátíðina undir stjórn Ilans Volkovs, fyrir frönsku útvarpshjómsveitina L'Orchestre De Radio France, Nordic Affect og Kronos-kvartettinn svo eitthvað sé nefnt. 

Úlfur Hansson fæddist í Lúxemborg árið 1988. Hann lauk BA-prófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistaragráðu frá Mills College í Bandaríkjunum í kjölfarið. Undanfarin sjö ár hefur Úlfur verið búsettur í San Francisco og New York, en hann dvelur um þessar mundir á Íslandi vegna heimsfaraldursins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert