Helgi Bjarnason
Íbúar Suðurnesja hafa ekki haft mikið samband við heilsugæslustöðvar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vegna áhrifa jarðskjálftahrinunnar á líðan og heilsu þeirra.
Alma María Rögnvaldsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, segir þó að þegar fólk mæti í viðtöl við lækni eða hjúkrunarfræðing láti sumir þess getið að jarðskjálftarnir hafi slæm áhrif. Það á mest við um íbúa Grindavíkur.
Mörgum íbúum Grindavíkur hefur ekki orðið svefnsamt í þeirri öflugu jarðskjálftahringu sem nú hefur staðið á þriðju viku. Svefnleysið hefur áhrif á líðan fólks og getur haft áhrif á vinnu. Alma segir að einnig finni hluti fólks til óróleika og kvíða vegna ástandsins.
Ljóst er að sumir ná að laga sig að aðstæðum en aðrir eigi erfiðara með að venjast stöðugum hristingi að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Segir Alma að hugræn meðferð sé helsta hjálpin við kvíða. Óttar G. Birgisson, sálfræðingur hjá HSS, hefur tekið saman leiðbeiningar um kvíðaviðbrögð sem starfsfólk stofnunarinnar afhendir þeim sem á þurfa að halda.