Um helmingur starfsmanna Landspítalans hefur lokið eða fengið fyrri skammt bólusetningar. Það var því gleðilegt að geta boðað tæplega 2 þúsund starfsmenn í bólusetningu til viðbótar í síðustu viku. Vonbrigðin því mikil þegar henni var frestað.
Þetta skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í forstjórapistli sínum sem birtist á vefsíðu Landspítalans í gær.
Þar segir Páll að sérstök varkárni starfsmanns Landspítalans sem greindist með Covid-19 um síðustu helgi, eftir að starfsmaðurinn hafði farið á fjölmenna tónleika í Hörpu, og víðtækar aðgerðir vegna smitsins virðist hafa orðið til þess að „hið bráðsmitandi breska afbrigði dreifðist ekki á hennar viðkvæma vinnustað og raunar ekki heldur í miklu fjölmenni þar sem hún var tónleikagestur.“
Páll segir það hafa verið til fyrirmyndar og þakkar konunni fyrir fyrir að sýna aðgát og vandaða umgengni í samræmi við leiðbeiningar og tilmæli farsóttanefndar.
Uppákoman leiði þó hugann að bólusetningum starfsmanna Landspítalans en það sé vel þekkt að bóluefni hafi verið af skornum skammti. Um 3.500 af rúmlega 6 þúsund starfsmönnum Landspítala hafi lokið eða fengið fyrri skammt af bóluefni. Það hafi því verið mikil gleðiefni þegar hægt var að boða tæplega 2 þúsund til viðbótar í bólusetningu.
„Vonbrigðin, þegar ljóst var að fresta yrði bólusetningum í varúðarskyni, voru beinlínis áþreifanleg. Ljóst er að frestunin verður a.m.k. fram í næstu viku, vonandi skýrast málin sem fyrst en auðvitað þarf ávallt að gæta fyllsta öryggis,“ segir Páll í pistlinum.
„Það er ástæða til að nota tækifærið og hrósa okkar frábæra fólki sem skipulagt hefur og staðið að bólusetningunum, það hefur unnið afrek við mjög erfiðar aðstæður,“ segir hann einnig.
Í pistlinum, sem lesa má í heild sinni á vef Landspítalans, fjallar Páll einnig um framtíðarþróun Landspítala í jaðri Vísindaþorpsins í Vatnsmýri, Auðnu tæknitorg og um lausnamiðað og léttleikandi starfsfólk Landspítalans.
„Það má nefnilega ekki gleyma því að þrátt fyrir að faraldurinn hafi falið í sér erfiðar áskoranir og þungbær augnablik þá hefur hann líka kallað fram bestu hliðar okkar allra og þétt raðirnar hjá starfsfólki sem hefur starfað sem órofa heild á þessu tímabili.“