Reykjavíkurborg hefur lagt fram beiðni um samstarf við Barnaspítala Hringsins vegna heilsufars barna í Fossvogsskóla þar sem mygla hefur verið viðvarandi í húsnæði skólans. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að beiðnin hafi verið lögð fram fyrir viku og að enn hafi ekki svör borist frá spítalanum.
RÚV greindi frá því í dag að tilkynningar hefðu borist frá foreldrum 24 barna sem kenndu sér meins vegna myglunnar í skólanum.
Helgi segir að markmið samstarfsins sé að fá yfirsýn yfir heilsu barnanna, hvað sé hægt að gera til að stuðla að vellíðan þeirra í skólanum og kortleggja vandann betur.
Í haust lagði Reykjavíkurborg fram beiðni til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um samstarf. Þá voru svör heilsugæslunnar þau að foreldrar ættu að vera í sambandi við sína lækna um veikindi barna í tengslum við mygluna.
„Við erum að gera þessa tilraun og vonumst sannarlega til að fólk með sérhæfingu á þessu sviði sé tilbúið til að vinna í þessum anga málsins með okkur. Markmiðið er að fá yfirsýn og vísbendingar sem geta hjálpað okkur að láta börnunum líða betur,“ segir Helgi.
Auk þess er tilgangurinn að kortleggja betur hvaða veikindi megi rekja beint til myglunnar í húsnæðinu og hvort það sé eitthvað annað í umhverfinu sem hafi áhrif á bæði nemendur og starfsfólk.
„Við vitum ekki til fullnustu hvað má rekja til húsnæðisins eða hvort það sé mögulega eitthvað annað sem er í umhverfinu. Við vitum að það var mygla í húsinu. Það hefur ekki fundist mygla núna, heldur myglugró sem einstaklingar geta vissulega haft ofnæmi fyrir. Við erum enn að gera okkar ýtrasta til að húsnæðið sé gott og stuðla að vellíðan bæði nemenda og að sjálfsögðu starfsfólksins,“ segir Helgi.