„Áberandi snarpur þessi“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að skjálftinn sem reið núna yfir rétt eftir klukkan tvö hafi verið áberandi snarpur. Skjálftinn var 5,4 að stærð, samkvæmt fyrsta mati Veðurstofu Íslands.

Fannar segir að bæjaryfirvöld í Grindavík haldi áfram að fylgjast grannt með stöðunni en stýrihópur fundaði í gær. Hann segir að skjálftinn núna upp úr klukkan tvö hafi líka verið undarlega langur. Allt er þó með kyrrum kjörum í Grindavík og ekki hefur verið tilkynnt um tjón á mönnum eða munum af völdum skjálftanna í dag.

Hann segir að Grindvíkingar hafi einnig fundið vel fyrir skjálftanum sem varð klukkan 12.34 en sá skjálfti mældist 5 að stærð. 

„Þetta er alltaf óþægilegt,“ segir Fannar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert