Enn er rafmagnslaust í hluta Hafnarfjarðar en tvær dreifistöðvar, í Arnarhrauni og Smyrlahrauni, eru úti. Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs hjá HS Veitum segir að unnið sé að því að greina hvar bilunin liggi. Einnig varð rafmagnslaust í Hafnarfirði í gærkvöldi en rafmagnið var komið aftur á eftir rúmlega klukkustundar rafmagnsleysi.
Egill segir þessi tvö atvik tengjast og nú sé unnið að því að mæla allar línur til þess að komast betur að því hvar bilunin liggi. „Við viljum ekki skjóta á þetta aftur fyrr en við erum búnir að mæla alla strengi,“ segir Egill í samtali við mbl.is.
Hann gerir ráð fyrir að búið verði að mæla alla strengi eftir um klukkustund og þá geta viðgerðir hafist.
Uppfært klukkan 11:10
Rafmagn er komið á í Hafnarfirði.