Erlendir blaðamenn mættir til að fylgjast með gosi

Matthias Vogt í þyrluflugi.
Matthias Vogt í þyrluflugi. Ljósmynd/www.vh.is

Að minnsta kosti tveir erlendir blaðamenn eru komnir til Íslands í þeim tilgangi að fylgjast með mögulegu eldgosi á Reykjanesskaga. Þá er von á fleirum til landsins. Mikil spurn hefur verið eftir þyrluflugi í kringum mögulegt eldgos, ef af því verður, að sögn eiganda fyrirtækis sem býður upp á þyrluflug fyrir ljósmyndara og ferðamenn.

Eigandi fyrirtækisins, VolcanoHeli, segir eftirspurnina vera mikla og að fólk sé mjög áhugasamt. Daglega berist þeim tölvupóstar og símtöl frá fólki sem hefur áhuga á því að sjá gosið úr þyrlu.

Þá séu fleiri en 100 manns komnir á biðlista hjá fyrirtækinu. Um er að ræða eins konar fyrstir koma, fyrstir fá lista. Enda gefst líklega ekki tími til þess að allir sem vilja nái að berja eldgosið augum.

Ef til gossins kemur, fá þeir sem eru á lista tölvupóst og þeir verða beðnir um að skrá sig á netinu.

VolcanoHeli býður upp á þyrluferð að hugsanlegu eldgosi.
VolcanoHeli býður upp á þyrluferð að hugsanlegu eldgosi. Ljósmynd/www.vh.is

Ítarlegar leiðbeiningar um öryggi útgefnar

Matthias Vogt, eigandi VolcanoHeli, segir að margir Íslendingar hafi sýnt fluginu áhuga en einnig erlend fjölmiðlafyrirtæki. Þá séu að minnsta kosti tveir blaðamenn komnir til landsins til að fylgjast með mögulegu gosi og von sé á fleirum til landsins.

„Það eru margir erlendis sem bíða eftir því að bóka flug ef það skyldi gjósa,“ segir Matthias.

Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem VolcanoHeli flýgur með fjölmiðlafólk yfir eldgos en þeir gerðu slíkt í Holuhraunsgosinu árið 2014.

Isavia og Samgöngustofa hafa gefið út ítarlegar leiðbeiningar til að tryggja öryggi flugs um svæðið. Í ljósi þess að gossvæðið er nálægt Keflavíkurflugvelli verða flugmenn að hafa samband við flugturn í Keflavík til að fá leyfi til að fljúga á svæðinu. Í leiðbeiningunum segir einnig að ekki megi fljúga beint yfir gosstöð.

Ljósmynd/www.vh.is

Vonast eftir túristagosi

Matthias segist vita um mörg þyrlufyrirtæki og einkaflugmenn sem ætli sér að fljúga í kringum gosið ef til þess kemur.

„Ég er viss um að allir muni vilja fljúga ef þetta gerist,“ segir Matthias.

Matthias vonast til að einungis verði um „túristagos“ að ræða. Það er að segja gos með einungis hraunrennsli en ekki ösku líkt og í Holuhraunsgosi, svo það verði öruggt að fljúga í kringum svæðið.

Matthias bendir þó á að einungis verði flogið ef aðstæður eru öruggar og yfirvöld gefi grænt ljós á flugið. Farið verður eftir leiðbeiningum almannavarna.

Þyrlur VolcanoHeli er búnar sérstökum upptökubúnaði sem er staðsettur á nefi þyrlunnar, þannig má taka upp eldgosið í miklum gæðum. Matthias segist ekki vita til þess að  aðrar þyrlur en þyrlur VolcanoHeli búi yfir þessum ákveðna búnaði á Íslandi.

Holuhraunsgos 2014.
Holuhraunsgos 2014. Ljósmynd/Marco Nescher
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert