Fimmtán ára í rallýkrossi

Ólafía Kristín Helgadóttir er spennt að keppa í rallýkrossi. Hún …
Ólafía Kristín Helgadóttir er spennt að keppa í rallýkrossi. Hún er aðeins fimmtán ára og á framtíðina fyrir sér í íþróttinni. mbl.is/Ásdís

Það er líf og fjör á heimilinu þegar blaðamann ber að garði til rallfjölskyldunnar í Grafarvogi. Fyrir utan má sjá bíla af ýmsum stærðum og gerðum og flestir komnir til ára sinna. Í húsinu búa þrjár kynslóðir; afinn Sigurður Óli Gunnarsson á neðri hæð og mæðgurnar Elsa Kristín Sigurðardóttir, Ólafía Kristín og yngri systir hennar Áslaug Svava á þeirri efri.

Fyrsti meistarinn í fjölskyldunni

„Ég er nýbyrjuð í rallýkrossi,“ segir Ólafía og segir líklegt að Áslaug Svava byrji í sportinu þegar hún hafi aldur til eftir tvö ár.

„Þetta gengur í ættir. Afi og mamma og Jói frændi sem er pabbi Gunnars hafa öll verið í þessu,“ segir hún.

Áslaug Svava, systir Ólafíu Kristínar, ætlar í rallýkross þegar hún …
Áslaug Svava, systir Ólafíu Kristínar, ætlar í rallýkross þegar hún hefur aldur til eftir tvö ár. mbl.is/Ásdís

„Gunnar er fyrsti Íslandsmeistarinn í fjölskyldunni, loksins,“ segir Elsa og í þeim töluðu orðum mætir Gunnar Karl Jóhannesson upp á aðra hæð. Hann er 24 ára og hefur stundað akstursíþróttir í níu ár.

„Hér er Gunnar Íslandsmeistari! Nú er hann ekki lengur kallaður Gunnar frændi, heldur Gunnar Íslandsmeistari,“ segir Elsa og brosir breitt.

Hvernig byrjaði rall- og rallýkrossáhugi fjölskyldunnar?

„Það byrjaði hjá afa. Eigum við að ná í hann?“ spyr Ólafía.
„Hann á eftir að yfirtaka viðtalið,“ segir Gunnar og hlær.
„Hann talar mjög mikið,“ segir Ólafía.
„Hann er búinn að vera í ralli í fjörutíu ár og dró pabba minn með sér í þetta, og þannig kynntist ég þessu,“ segir Gunnar.

Kallað er í afann sem röltir upp stigann, reffilegur með mikið grátt skegg og blik í auga.

Lent í flestum árekstrum

Gunnar útskýrir fyrir blaðamanni muninn á ralli og rallýkrossi.

„Þetta eru tvær mismunandi íþróttir. Rall er á þjóðvegum, lokuðum svæðum og keyrt er frá A til B. Í rallýkrossi er keyrt í hringi og sá vinnur sem er fyrstur,“ segir Gunnar.

„Í rallýkrossi eru alltaf sömu beygjur en í ralli eru þúsund beygjur. Tíminn ræður í ralli en í rallýkrossi er það sá sem er fyrstur,“ útskýrir Gunnar og segist hafa byrjað ungur.

„Ég byrjaði um leið og ég gat, í unglingaflokki, fimmtán ára. Alveg eins og hún er að gera núna,“ segir Gunnar um Ólafíu.

Athygli blaðamanns færist yfir á höfuð ættarinnar, en Sigurður er þúsundþjalasmiður; duglegur að gera upp bíla, smíðar veltibúr og getur að sögn fjölskyldunnar gert við allt milli himins og jarðar.

Afinn Sigurður Óli leggur unga fólkinu lífsreglurnar. Barnabarnið Ólafía og …
Afinn Sigurður Óli leggur unga fólkinu lífsreglurnar. Barnabarnið Ólafía og Íslandsmeistarinn Gunnar Karl, bróðursonur hans, hlusta með athygli. Sigurður keppti í rallýkrossi og ralli í alls sautján ár. mbl.is/Ásdís

„Ég smíðaði bíl og fór að keppa á honum árið 1987,“ segir Sigurður en þá var dóttir hans Elsa aðeins fimm ára.

„Ég man eftir mér á brautinni að horfa á og fannst það mjög spennandi,“ segir Elsa.
Sigurði gekk vel en segist aldrei hafa lent í fyrsta sæti.

 „Ég vann aldrei, fékk kannski annað og þriðja sætið. Það kostar mikla vinnu og peninga að vera fyrstur, að keppa um fyrsta sætið,“ segir Sigurður sem segir það hafa komið fyrir að lenda í árekstri eða bílveltu í keppni.

Eins og tónlistarnótur

„Ég hef verið aðstoðarökumaður í ralli en fór aldrei í rallýkrossið. Ég er blind á öðru auga og ég hef því bara verið aðstoðarökumaður,“ segir Elsa.

„Maður byrjar oftast í rallýkrossi og fer svo í rall,“ útskýrir Ólafía.
Sigurður skellir á eldhúsborðið möppu með alls kyns töflum, tölum og undarlegum merkingum. 

„Ef þú ætlar að vera aðstoðarökumaður verðurðu að vera með allt þetta á hreinu. Þetta er eins og tónlistarnótur; þú þarft að geta lesið úr þessu á réttum tímum. Réttur hljómur á réttum stað svo lagið hljómi rétt,“ segir Sigurður. 

Er mikið gagn að aðstoðarökumanni? spyr blaðamaður og veit greinilega lítið sem ekkert um sportið.

Þau svara hvert í kapp við annað: „Já! Þú mátt ekki keppa án hans,“ segir Ólafía.
„Þú átt ekki möguleika án þess að vera með góðan „co-driver“,“ segir Sigurður.

„Ef þú klúðrar einhverju er tapið þér að kenna. En ef þið sigrið fær ökumaðurinn heiðurinn,“ segir Elsa og brosir.

Undirbúningur skilar árangri

En þú Elsa, ertu hætt í ralli?

„Ég er ekki hætt en hef ekki keppt síðan 2014,“ segir hún og nefnir að nánast öll fjölskyldan hafi verið í þjónustu hjá Gunnari, en hver ökumaður þarf heilt þjónustulið með sér í keppnum.

„Fjölskyldan stendur við bakið á Gunnari,“ segir hún og segir Ólafíu hafa verið í þjónustu hjá Gunnari um nokkurt skeið.

Sjálf hefur hún verið það sem kallast „medical officer“ og hefur einnig tekið dómaranámskeið hjá FÍA.

„Það er hægt að vera í sportinu þótt maður sé ekki inni í bíl,“ segir hún.
„Ég keppti í sautján ár,“ segir Sigurður og segir að Elsa hafi byrjað hjá sér sem aðstoðarökumaður fimmtán ára.

„Hún fór í ruglið og hætti í skóla,“ segir Sigurður og barnabarnið Ólafía skellihlær.
„Ég fór ekki í ruglið! Jú, ég hætti í skóla og fór að vinna,“ segir Elsa en þess má geta að síðar hélt hún áfram í skóla og er hún í dag hjúkrunarfræðingur með með meistarapróf í velferðarþjónustu og opinberri stjórnsýslu.

„Móðurarmurinn er fólk úr Bústaðahverfinu,“ segir afinn og á það víst að útskýra hvers vegna dóttir hans hætti í skóla á sínum tíma.

„Nei pabbi! Það er af því ég er með athyglisbrest og er lesblind!“

Þau hlæja dátt við eldhúsborðið.

„Ég reddaði henni vinnu hjá Úlfari á Þremur Frökkum og svo kom hún með mér í rall. Þar lærði hún merkilega lexíu: því betur sem þú undirbýrð þig, því betri árangri náum við. Og ef við gerum mistök, þá getur það verið dýrkeypt. Þannig lærði hún að undirbúningur skilar árangri og hún lærði að vinna undir álagi. Það er ekkert smá álag fyrir fimmtán ára gamalt barn að passa að halda mér á veginum,“ segir Sigurður og skellihlær.

Næsta rallýkrossstjarnan

Ólafía er sem fyrr segir að stíga sín fyrstu skref í fjölskyldusportinu og mun læra hjá Gunnari að vera ökumaður í rallýkrossi.

Ætlarðu að gera hana að næstu stjörnu?

„Það er stefnan,“ segir Gunnar og þau bæta við að afinn muni líka koma til með að leiðbeina stúlkunni.

Gunnar Íslandsmeistari hyggst gera Ólafíu frænku sína að næstu rallýkrossstjörnu.
Gunnar Íslandsmeistari hyggst gera Ólafíu frænku sína að næstu rallýkrossstjörnu. mbl.is/Ásdís

„Mér finnst þetta gaman. Maður finnur fyrir adrenalíninu,“ segir Ólafía og hyggst keppa í sumar. Hún er líka í íshokkí á veturna, í lúðrasveit og á málaranámskeiði.

Sigurður bætir við: „Svo erum við saman í hljómsveit. Eiginlega svona jólahljómsveit; við spilum jólalög í reggae-útgáfu. Ólafía spilar á allt mögulegt en ég spila á bassa og trommur.“

Hvað finnst vinum þínum um að þú sért að fara að keppa í rallýkrossi, Ólafía?

„Þeir trúa því ekki! Segja bara, ha? Þú ert fimmtán ára!“ segir hún og brosir.

Hræddari í venjulegum bíl

Gunnar segir íþróttina ekki vera hættulega.

„Það er hættulegra að keyra út í búð. Í þessum bíl ertu með veltibúr í kringum þig, í eldvarnargalla með hanska og hjálm. Og hálskraga. Svo eru starfsmenn allt í kringum brautina. Mér finnst ég aldrei öruggari en í rallbíl,“ segir Gunnar og Elsa tekur undir.

„Ég er bílhrædd og varð eiginlega hræddari í venjulegum bíl eftir að hafa verið í rallbíl. Þá finnst manni eitt bílbelti ekki mjög traustvekjandi,“ segir hún.

„Ég hef velt fimm sinnum, allt í keppni. Það er aldrei gaman,“ segir Gunnar.

Hvernig var svo tilfinningin að hreppa Íslandsmeistaratitilinn?

„Ég var nú ekkert ánægður akkúrat þegar ég vann af því ég klúðraði þeirri keppni. En ég var kominn með ágætisforskot,“ segir Gunnar og útskýrir að reiknaðar séu saman margar viðureignir til að fá sigurvegara mótsins.

„Í þessari keppni var ég í fjórða sæti. En endaði sem Íslandsmeistari.“

Sigurður Óli, Gunnar Karl, Ólafía Kristín, Áslaug Svava og Elsa …
Sigurður Óli, Gunnar Karl, Ólafía Kristín, Áslaug Svava og Elsa Kristín tilheyra mikilli rallfjölskyldu. mbl.is/Ásdís

Nánar er rætt við rallfjölskylduna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 





Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert