Fínt veður í dag en versnar á morgun

Kort/Veðurstofa Íslands

Það verður fremur hægur vindur á landinu í dag og víða stöku él en norðaustanlands verður heldur meiri ofankoma fram undir hádegi. Hins vegar er útlit fyrir þurrt og bjart veður á Suðvestur- og Vesturlandi fram á kvöld. Frost 0 til 8 stig en frostlaust sunnan til á landinu yfir daginn.

„Á morgun nálgast skil landið úr suðvestri og eftir hádegi verður allhvöss eða hvöss suðaustanátt og rigning eða slydda um landið sunnan- og vestanvert. Á norðausturhluta landsins verður hægari vindur og úrkomulítið þangað til skilin ganga þar yfir undir kvöld. Það hlýnar smám saman og síðdegis verður hiti víða 0 til 7 stig. Seint annað kvöld dregur síðan úr vindi og úrkomu sunnan og vestan til á landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Dálítil snjókoma norðaustanlands fram undir hádegi, annars stöku él en lengst af bjartviðri suðvestan- og vestanlands. Frost 0 til 8 stig, en frostlaust sunnan til yfir daginn.

Gengur í suðaustan 13-20 á morgun með rigningu eða slyddu um landið sunnan- og vestanvert, en hægari vindur og úrkomulítið norðaustanlands fram eftir degi. Hlýnar smám saman. Hægari suðvestanátt og dálitlar skúrir sunnan og vestan til seint annað kvöld.

Á mánudag:

Gengur í suðaustan 13-20 m/s með rigningu eða slyddu um landið S- og V-vert en hægari vindur og úrkomulítið NA-lands fram eftir degi. Hlýnandi, hiti 0 til 7 stig síðdegis. Lægir S- og V-til seint um kvöldið.

Á þriðjudag:
Suðvestan 8-15 og dálítil væta með köflum SV- og V-lands. Slydda eða rigning um landið A-vert, en léttir til þar með deginum. Hiti breytist lítið. Dregur úr vindi síðdegis.

Á miðvikudag:
Sunnan 10-15 og súld eða dálítil rigning, en hægari og þurrt að mestu NA- og A-lands. Hiti 6 til 13 stig.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt og vætusamt um landið vestanvert, en léttskýjað fyrir austan. Áfram hlýtt í veðri.

Á föstudag:
Suðvestanátt með skúrum og síðar éljum, en áfram bjart um landið A-vert. Kólnandi veður.

Á laugardag (vorjafndægur):
Útlit fyrir ákveðna suðvestanátt með snjókomu eða rigningu um landið V-vert. Hiti 0 til 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert