Fyrstu myndirnar innan úr Húsi íslenskunnar

Hús íslenskunnar.
Hús íslenskunnar. Mynd/Hornsteinar arkitekta

Framkvæmdir við Hús íslenskunnar hafa gengið vel og eru á undan áætlun. Uppsteypu hússins lauk fyrir skömmu og er lokun hússins á lokametrunum. Fram undan er lagnavinna og bygging innviða hússins.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hvernig framkvæmdum miðar og sjást þar meðal annars í fyrsta skipti myndir innan úr húsinu.

Framkvæmdir við Hús íslenskunnar hófust 30. ágúst 2019, er menntamálaráðherra undirritaði verksamning við Ístak um byggingu hússins.

Um 50 starfsmenn hafa að jafnaði verið á svæðinu frá upphafi framkvæmda, en nú mun þeim fjölga umtalsvert, enda í mörg horn að líta í þessari sporöskjulöguðu byggingu sem er stór og tæknilega flókin.

Hjarta hússins verður sérhönnuð handritageymsla í kjallara þess, þar sem gætt verður að öryggi skinnhandrita í umsjá Árnastofnunar. Stofnunin mun deila húsinu með Háskóla Íslands og mun kennsla og rannsóknir í íslenskum fræðum flytjast í húsið.

1. apríl næstkomandi verða 50 ár liðin frá komu fyrstu handritanna til Íslands. Við það tækifæri verður hornsteinn lagður að húsinu. Framkvæmdasýsla ríkisins og Ístak áætla að húsið verði afhent eigendum sínum í ágúst 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert