Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af töluverðum fjölda fólks í gærkvöldi sem var til vandræða. Fólkið átti það sameiginlegt að vera ölvað. Einn var svo ölvaður að hann fann ekki heimili sitt og reyndi að banka upp á hjá fólki. Kl. 17:16 var tilkynnt um innbrot í bifreið. Lögregla rannsakar málið.
Í dagbók lögreglunnar fyrir tímabilið frá klukkan 17 í gær þangað til fimm í morgun kemur fram í skýrslu frá öllum lögreglustöðvum á höfuðborgarsvæðinu að kvartanir hafi borist vegna hávaða og annarra minni háttar mála. Á sumum svæðum voru hávaðakvartanirnar fjölmargar en færri á öðrum.
Í umdæmi stöðvar 1, það er Seltjarnarnesi, Vesturbænum, miðborginni og Austurbænum, þurfti lögreglan að sinna þó nokkrum málum á milli klukkan 19 og 22 þar sem ölvaðir einstaklingar voru til vandræða. Þau öll leyst með aðkomu lögreglu en án þess að handtaka þyrfti neinn.
Um klukkan 19 var tilkynnt um ofurölvi mann sem var að reyna að opna bifreiðar í miðbænum. Manninum vísað á brott eftir viðræður við lögreglu.
Á tólfta tímanum var tilkynnt um tvær líkamsárásir í miðbænum, önnur þeirra var á skemmtistað en hin utandyra.
Skömmu fyrir þrjú í nótt var haft samband við lögreglu vegna ofurölvi manns sem fann ekki heimili sitt og var að reyna að banka hjá fólki til að komast inn. Honum ekið heim til sín af lögreglu.
Lögreglan á stöð 2 sem sinnir Hafnarfirði og Garðabæ fékk ábendingu um mann sem var fyrir utan verslun að ónáða fólk. Lögreglan leysti málið á vettvangi.
Síðdegis var tilkynnt um menn í átökum í umdæmi lögreglunnar í Breiðholti og Kópavogi. Einn var handtekinn vegna málsins og er hann vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Lögreglan af sömu stöð fékk tilkynningu um menn að brjótast inn í bifreiðar á sjöunda tímanum og hlupu þeir af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn. Málið er í rannsókn.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi stóð lögregla mann að því að stela dekkjum undan bifreið og var hann handtekinn á vettvangi af lögreglunni á stöð 4 en hún sinnir Mosfellsbæ, Grafarvogi og Árbæ.
Talsvert tjón varð á tveimur bílum í árekstri á sjöunda tímanum í gær en meiðsli minni háttar. í gærkvöldi var síðan tilkynnt um að ekið hefði verið á gangandi mann. Þegar lögregla kom á staðinn virtist málið vera minni háttar og viðkomandi virtist óslasaður við skoðun sjúkraflutningamanna.
Sex ökumenn voru síðan stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna.