„Sá sterkasti sem við höfum fundið hingað til“

Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri og íbúi í Grindavík.
Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri og íbúi í Grindavík. mbl.is/Hanna

Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri og íbúi í Grindavík sagðist, í samtali við mbl.is, hafa fundið vel fyrir skjálftanum sem reið yfir korter yfir tvö í dag en hann var 5,4 stærð og voru upptök hans um 2,5 km vestur af Nátthaga.

„Þetta var allavega sá sterkasti sem við höfum fundið hingað til, það nötraði allt og skalf,“ segir Sigurður en bætti við að ekkert hefði dottið úr hillum en eitt glas hefði farið á hliðina. Þá hafi verið búið að fjarlægja einhverja hluti úr hillum og myndir af veggjum á síðustu vikum.

Þeir minni ekki „neitt, neitt“ í samanburði

Sigurður segir minni skjálftana sem dunið hafa yfir síðastliðnar viku smávægilega í samanburði við þá stóru eins og þennan sem var fyrr í dag.

„Ég held að þegar það koma svona stórir eins og þessi, þá finnst manni hinir sem koma og eru minni, ekki vera neitt, neitt. Það er nú merki um það að maður sé einhvern veginn að venjast þessu, finnst mér allavega,“ segir Sigurður og bætir við:

„Við gátum nokkurn veginn skotið á hvað hann var stór allavega miðað við það sem kom, 5,4. Maður er svona farinn að átta sig á því hversu stór hann er.“

Skjálftinn kl. 14:15 í dag fannst vel í Grindavík.
Skjálftinn kl. 14:15 í dag fannst vel í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurður segir Sigurður það misjafnt hvort fólk sé kvíðið yfir skjálftunum. Sumir séu kvíðnir en aðrir rólegir og treysti því að húsin séu þannig byggð að þau þoli skjálftana.

„Við treystum allavega því að þessi hús séu það vel járnabundin og vel byggð að það eigi ekki að hrynja en auðvitað þegar það kemur svona skjálfti eins og núna, þessi stærsti þá náttúrulega hrekkur maður í kút, segir Sigurður.

Nýr veruleiki

„Þetta er nýr veruleiki,“ segir Sigurður og bendir á að hann hafi ýmislegt lært í jarðfræði á síðustu vikum. Til að mynda hugtök eins og gikkskjálfti og kvikugangur.

„Maður er pínulítið að fá þessi jarðfræði beint í æð. Það er líka svona áhugavert,“ bætir Sigurður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert