„Algjörlega óþolandi uppákoma“

Nemendur fá að velja hvort þeir þreyti samræmd könnunarpróf eða …
Nemendur fá að velja hvort þeir þreyti samræmd könnunarpróf eða ekki. Morgunblaðið/Hari

Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í dag komu fyrir nefndina gestir sem upplýstu nefndarmenn um þá stöðu sem upp er komin vegna misheppnaðrar framkvæmdar samræmdra prófa í liðinni viku. Ákveðið hefur verið að leggja fyrir valkvæð próf, en þau hefjast nú á miðvikudag.

Fyrir nefndina komu meðal annarra menntamálaráðherra, umboðsmaður barna og forstjóri menntamálastofnunar og segir formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon úr Sjálfstæðisflokki, að staðan og atburðarásin öll sé nú skýrari í augum nefndarmanna. 

Hann segir að ástandið sé óviðunandi og að nefndarmenn séu sammála um það.

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi aðilar útskýrðu sín sjónarmið í þessu og nefndarmenn hafa dýpri skilning á málinu en það kom ekki beint nein niðurstaða úr þessum umræðum, umfram það sem áður hefur komið fram,“ segir Páll og bætir við: 

„En það lá fyrir og liggur enn fyrir að þetta er algjörlega óþolandi uppákoma og það stendur á menntamálaráðuneytið og menntamálastofnun að ráða bót á þessu.“

Keppst um að lýsa yfir óánægju

Ýmsir aðilar hafa tjáð sig um klúðrið með samræmdu prófin. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, sagði til dæmis á vef stofnunarinnar að óviðundandi væri að nemendur þreyti próf í rafrænu kerfi sem metið væri ófullnægjandi af skipuleggjendum prófsins sjálfs. 

Þá sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mbl.is að hún væri ekki sátt við framgang mála og sagði að menntamálastofnun yrði að svara fyrir það hvers vegna engin varaáætlun gekk upp við framkvæmd prófsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert