Nýtt deiliskipulag verður auglýst á vormánuðum fyrir þjóðgarðssvæðið á Þingvöllum, en meðal annars er þar gert ráð fyrir nýju bílastæði og þjónustumiðstöð norðan við núverandi bílastæði við Hakið og nýja gönguleið þaðan niður í Almannagjá. Þá er horft til þess að veitingastaður með aðstöðu fyrir veislur og ráðstefnur verði sunnan megin við Hakið.
Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður segir við mbl.is að það sé hálffurðulegt að vinna að nýju deiliskipulagi á þessum tíma. Ferðamenn séu mjög fáir vegna faraldursins, en á sama tíma horfi deiliskipulagið til þess að fjöldinn taki fljótt við sér og að Þingvellir geti betur annað þeim fjölda sem þangað sækir miðað við fyrri ferðamannafjölda og þótt bætist nokkuð við þann fjölda.
Einar segir að hugmyndin með deiliskipulaginu sé að setja nokkur „grunnprinsipp“ til framtíðar, en hann tekur fram að þarna séu hugmyndir sem séu hugsaðar til lengri tíma og ekki endilega horft til þess að ráðast í þær strax. Vinnan sé byggð á stefnumörkun þjóðgarðsins frá 2018 sem hafi verið sett þegar mikill fjöldi gesta kom á staðinn og gert sé ráð fyrir að garðurinn verði aftur einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins þegar ferðaþjónustan taki við sér á ný.
Að hans mati er eitt stærsta atriðið í deiliskipulagshugmyndunum að horft sé til þess að opna svæðið með nýrri aðkomu. Þannig væri bílastæði fyrir 200-300 bíla og nokkrar rútur komið fyrir norðan við bílastæðið við Hakið. Einhverjir hafa tekið eftir litlu malarstæði á þessu svæði á leið sinni á Þingvelli, en Einar segir að nýja stæðið verði nær Hakinu en malarstæðið. Þegar það verði komið í gagnið verði malarstæðið jafnframt afmáð.
Einar tekur fram að þó að stæðum muni mögulega eitthvað fjölga með þessu sé aðalhugmyndin að halda fjöldanum nokkuð óbreyttum og færa bílaumferð sem fer um neðri bílastæðin upp á bæði Hakið og nýja stæðið. Þannig fengist skemmtilegra útsýni að ofan án jafn mikillar umferðar fyrir neðan. „Ef farið yrði í að stækka bílastæðin fyrir neðan sæi fólk lítið annað en bíla þegar það horfði yfir þingstaðinn,“ segir Einar og bætir við að það sé ekki sýn sem hann sé spenntur fyrir.
Í deiliskipulaginu er jafnframt gert ráð fyrir að við nýja bílastæðið verði ný þjónustumiðstöð, en Einar segir að það myndi bæta tengingu og þjónustu við gesti þjóðgarðsins. Niður frá bílastæðinu er svo gert ráð fyrir nýjum göngustíg sem fer í gegnum Stekkjargjá og tengist inn á Langastíg fyrir ofan Almannagjá, norðan við Öxarárfoss. „Þetta yrði nýr punktur fyrir svæðið, bæði með flottu útsýni yfir sigdældina en um leið værum við að opna fyrir leið niður í Stekkjargjá,“ segir Einar.
Með þessu fyrirkomulagi opnast fyrir þann möguleika að rútur setji farþega út við Hakið þaðan sem þeir gætu gengið í gegnum þingsvæðið og svo aftur upp nýja stíginn og á nýja bílastæðið þar sem þeir væru sóttir. Einar segir að með þessu fyrirkomulagi sé opnað á þennan möguleika fyrir þá sem vilja lengja göngutúrinn og til að auka flæðið í gegnum allt svæðið. Hann tekur þó fram að þetta sé öllu lengri leið og myndi kalla á meiri tíma en margir ferðaþjónustuaðilar hafi hingað til horft til að verja í garðinum.
Einar segir að með faraldrinum hafi stjórnendum garðsins aðeins tekist að ná vopnum sínum aftur eftir gríðarlega fjölgun ferðamanna síðasta áratuginn. Tími hafi gefist til að vinna að innviðum sem nauðsynlegt hafi verið að styrkja. „Þegar ferðaþjónustan tók þetta risastökk fyrir 10 árum voru stjórnvöld tekin í bólinu og næstu ár var reynt að takast á við þessa bylgju. Núna hefur maður haft tíma og er meira tilbúinn,“ segir Einar.
Þannig hefur meðal annars frá í haust verið unnið að nýjum göngustíg um búðasvæðið og 25 nýjum salernum, líkt og mbl.is hefur fjallað um. Þá sé í vinnslu burðarþolsgreining fyrir Þingvelli og að niðurstöðu sé að vænta um það í sumar. Fyrirsjáanlegt sé að til langrar framtíðar verði ekki hægt að anna auknum fjölda ferðamanna ár eftir ár með sífellt umfangsmeiri innviðum og stýringu.
Hefur gögnum um fjölda og dreifingu gesta um garðinn verið safnað sem og kannanir gerðar um upplifun gesta. Með þessi gögn er vonast til að hægt sé að byggja upp líkan sem aðstoði við að áætla þolmörk núverandi innviða, framtíðarþörf fyrir uppbyggingu og hvað sé rétt að auka innviði til framtíðar mikið. Einar segir að slík vinna verði fínt tæki til að vinna að frekari stefnu um fjölda bílastæða, aðgengi og uppbyggingu á komandi árum.
Auk þjónustumiðstöðvar, bílastæðis og gönguleiða verður í deiliskipulagshugmyndinni horft til þess að reisa nýtt veitingahús sunnan við Hakið. Horft er til þess að staðurinn muni leysa af Hótel Valhöll, en hótelið brann árið 2009. Fengi staðurinn sér aðkomu frá Hakinu og væri með góðu útsýni yfir þinghelgina og vatnið með aðstöðu til að halda veislur og aðra viðburði að sögn Einars. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði um þúsund fermetrar.
Einar segir að þegar deiliskipulagshugmyndin verði auglýst gefist fólki tækifæri til að gera athugasemdir við hugmyndirnar. Segir hann að ef málið fari í gegn án mikilla breytinga megi gera ráð fyrir að stærri framkvæmdir gætu hafist árið 2023, en þá vísar hann til bílastæðisins og frumvinnu við göngustíginn niður Stekkjargjána. Þangað til hafi garðurinn fjármagn fyrir hönnun og frumathugun, en talsvert flókið mál sé að hanna stíginn niður gjána. Einar segir hins vegar að þjónustumiðstöðin og veitingastaðurinn sé eitthvað sem horft sé til lengra fram í framtíðina.