„Ég tel ekki ráðlegt að fara í tilslakanir núna“

Þórólfur Guðnason skilaði inn minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag, þar …
Þórólfur Guðnason skilaði inn minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag, þar sem útlistaðar eru tillögur hans fyrir sóttvarnatakmarkanir eftir 17. mars. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að staðan í kórónuveirufaraldrinum sé áfram mjög góð á Íslandi. Smitið sem greindist í gær var hjá einstaklingi í sóttkví, sem tengdist öðru landamærasmiti, en ekki þeirri hópsýkingu sem fjallað var um í síðustu viku.

„Við erum því ekki að sjá neina frekari útbreiðslu á landinu,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Þórólfur skilaði inn minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag, þar sem útlistaðar eru tillögur hans fyrir sóttvarnatakmarkanir eftir 17. mars.

„Ég tel ekki ráðlegt að fara í tilslakanir núna. Við erum bara með nokkuð góða stöðu og takmarkanir eru ekki það miklar að knýjandi þörf sé á þessari stundu að slaka mikið á. Við búum við töluvert meira frjálsræði en flestar Evrópuþjóðir og við sáum það síðustu helgi hvað þetta getur gerst hratt ef smit koma inn frá landamærunum. Þetta er því mjög viðkvæmt,“ segir Þórólfur.

Kannast ekki við áform um að opna landið

Núgildandi reglugerð á landamærunum þykir hafa gefið góða raun og fá smit hafa brotið sér leið inn í samfélagið. 

Þórólfur segir það stefnu stjórnvalda að 1. maí verði farið að taka tillit til litakóðunarkerfis ESB um fjölda smita í hverju landi. „En út frá mínum sjónarhóli held ég að það sé bara rétt að bíða þar til nær dregur og sjá hvernig ástandið verður,“ segir Þórólfur.

Gefið hefur verið í skyn að með breytingunum 1. maí sé beinlínis fyrirhugað að „opna landið 1. maí“ en þau áform kannast sóttvarnalæknir ekki við. „Ég hef aldrei nokkurn tímann sagt að nokkur stefni á að opna landið þá,“ segir Þórólfur. 

Þórólfur segir að sannarlega sé verið að reyna að ná upp góðu ónæmi í samfélaginu með bólusetningu. „Og þegar við erum búin að ná því, og bólusetja viðkvæma hópa, þá held ég að allir stefni að því að slaka á landamærunum, en svo eru mismunandi skoðanir á því hvernig það er gert.“

Fjallar um vottorð í minnisblaði

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í dag að fjöldi ferðamanna utan Schengen-svæðisins kæmist ekki inn í landið, þar sem bólusetningarvottorð þeirra væru ekki tekin gild.

„Ég get tekið undir það að það hljómar undarlega að vottorð utan EES-svæðisins, eins og frá Bretlandi eða Bandaríkjunum, séu ekki tekin gild,“ segir Þórólfur. Þessir hópar geti þó útvegað sér alþjóðlegt vottorð frá WHO, sem virki á landamærunum. Þórólfur víkur að nánari útfærslum í þessum málum í minnisblaðinu sem hann sendi ráðherra í dag.

Í málefnum AstraZeneca segir Þórólfur lítið hafa breyst. Verið er að bíða eftir frekari gögnum um möguleg tengsl bóluefnisins við blóðtappa, sem var ástæðan fyrir því að notkun þess var hætt tímabundið hér á landi. Sóttvarnalæknir segir að hér á landi sé einnig verið að fara yfir þýðið sem hefur fengið bóluefnið og kanna hvort þar megi finna eitthvað athugavert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert