Enginn reyndist smitaður í skimun sem var gerð á viðskiptavinum líkamsræktarstöðvarinnar World Class, eftir að einstaklingur sem sótt hafði stöðina í Laugum reyndist smitaður.
Alls voru 28 iðkendur með hinum smitaða í tíma í Laugum í hádeginu þann 5. mars. Iðkendurnir voru sendir í sýnatöku og nú liggja niðurstöðurnar fyrir. „Það gleður okkur að tilkynna að engin smit komu út úr skimun þessa hóps. Við höldum því ótrauð áfram með okkar sóttvarnir,“ segir í stöðuuppfærslu hjá World Class.
Að sögn Björns Leifssonar, eiganda stöðvanna, hafa alls þrír smitast í stöðvum World Class svo vitað sé. Það var í þriðju bylgju veirunnar og tengdist einkaþjálfara sem mætti smitaður í boxklúbb.
Opið er í World Class og takmarkanir ekki sérlega íþyngjandi. Grímuskylda er í öllum rýmum nema þar sem æfing stendur yfir og tveggja metra regla gildir á æfingum. Þá eru tæki reglulega sótthreinsuð. Stöðin hvetur fólk til að mæta ekki á æfingu finni það fyrir einkennum.