Keilir hefur, í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, tekið að sér að leiða stofnun flugklasa á Íslandi. Undirbúningsvinna er hafin og áætlað er að halda stofnfund klasans á fyrri helmingi ársins 2021.
Í tilkynningu segir að fram undan séu kortlagning og samskipti við hagsmunaaðila í fluggeiranum og haft verði samband við þá í tengslum við verkefnið. Ásamt Keili verður starfandi fagráð um stofnun klasans sem mun hafa faglega umsjón með verkefninu þar til stjórn flugklasans verður skipuð.
Lagt er upp með að markmið með stofnun klasans verði tvíþætt. Annars vegar að efla samkeppnishæfni Íslands og íslenskra fyrirtækja í flugtengdum greinum og hins vegar að styrkja samstarf, innviði og nýsköpun í flugtengdum greinum á Íslandi.
Klasafélagar munu sjálfir setja sér stefnu og markmið um áframhaldandi starfsemi klasans. Áætlað er að halda stofnfund flugklasa á fyrri hluta ársins 2021 þar sem fyrstu drög að stefnu og klasakorti verða kynnt.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, kynnti á dögunum klasastefnu fyrir Ísland en þar kom fram mikilvægi klasa sem hreyfiafl nýsköpunar í þeim geira sem hann myndast um.
Með Flugklasanum verður þannig til nýr samstarfsvettvangur með þátttöku aðila úr flugtengdum greinum með það að markmiði að styrkja tengslanet og samstarf þeirra.
„Ég er sannfærð um að í framtíðinni muni hlutverk klasa í nýsköpunarvistkerfi atvinnulífsins verða enn fyrirferðarmeira og mikilvægara. Þeir þurfa að fá það súrefni, eldmóð og kraft sem nauðsynlegur er til að knýja áfram verðmætasköpun og toga íslenskt atvinnulíf áfram upp stigann í átt að aukinni samkeppnishæfni,“ sagði Þórdís.