Gerðu hlé á æfingunni til að aðstoða lögreglu

Gera þurfti hlé á æfingu sérsveitar ríkislögreglustjóra í dag þar sem sveitin þurfti að aðstoða lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. 

Mar­geir Sveins­son yf­ir­lög­regluþjónn segir að verið sé að framkvæma húsleitir vegna málsins, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um það. Hann staðfesti þó að málið hafi krafist aðstoðar sérsveitar í dag og að það tengist ekki manndrápsmáli tengdu Rauðagerði í febrúar. 

Sérsveitin var með æfingu innandyra í Rofabæ 7-9 í dag. Jón Már Jónsson, yfirmaður sérsveitarinnar, segir að sérsveitin hafi hafið æfingu að nýju eftir að hafa aðstoðað lögreglu. 

Jón segir að æfingin hafi almennt gengið vel og að stefnt sé á aðra æfingu á morgun. 

„Öll markmið æfingarinnar voru uppfyllt. Við vorum að æfa svokallaða innferðartaktík sérsveitar þar sem er sótt að læstu rými sem er opnað með ýmsum hætti, meðal annars með sprengiefni,“ segir Jón, en varað var við því í morgun að hvellir eða sprengingar gætu heyrst frá æfingasvæðinu. 

Jón segir það jákvætt að sérsveitin geti nýtt sér húsnæði sem til stendur að rífa í slíkar æfingar, en Rofabær 7-9 er tómt húsnæði sem fyrirhugað er að verði rifið. 

„Sérsveitin æfir mjög mikið allt árið um kring, en svona æfingar fara fram þegar það á að rífa húsnæði og við getum nýtt tækifærið. Það fer bara eftir ástandinu í þjóðfélaginu, hvort það sé verið að rífa og byggja mikið,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert