Nýjar gervihnattamyndir af umbrotasvæðinu við Reykjanesskaga staðfesta að streymi kviku heldur áfram inn í kvikuganginn. Mesta virknin er enn þá bundin við svæðið í kringum Nátthaga, en einnig hefur mælst smávægileg virkni um fjóra kílómetra norðan við það svæði.
Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að vísindamenn hafi í dag farið yfir gervihnattamyndir, eða myndapar, þar sem mynd frá laugardagsmorgninum 13. mars var borin saman við mynd sem tekin var sex dögum fyrr.
„Kvikugangurinn þróaðist líklega jafnt og þétt í síðustu viku, á svipuðum hraða og áður. Sá hluti gangsins sem er undir Fagradalsfjalli færðist um einn til tvo kílómetra til suðurs og suðurhreyfingin heldur áfram,“ segir Freysteinn við mbl.is.
Nýjustu gögn benda áfram til þess að mesti þrýstingur vegna kviku sé í syðsta enda kvikugangsins undir Nátthaga og þar sé því líklegasti staðurinn til að kvika komi upp nái hún að brjóta sér leið upp á yfirborðið.
Freysteinn segir að sveiflur í skjálftavirkni þurfi ekki endilega að vera í nákvæmu samhengi við kvikuhreyfingar eða magn kviku sem flæðir inn í jarðskorpuna. Það ferli geti verið mun jafnara en hin óreglulega jarðskjálftavirkni.
Myndirnar sýna að jarðskorpan beggja vegna kvikugangsins hefur gliðnað um allt að tíu sentimetra í sundur á milli myndataka. Einnig eru vísbendingar um að gangurinn sé að færast nær yfirborði en í síðustu viku var hann á um kílómetra dýpi.
„Í gegnum atburðarásina undanfarnar vikur hefur þetta dýpi heldur verið að grynnast. Við þurfum að taka þetta hreyfingamunstur sem við sjáum og túlka það með líkanreikningum. Þá fáum við út að síðustu vikur hefur skorpan gliðnað um þetta 15 til 20 sentimetra; eða um tíu sentimetra hvoru megin við kvikuganginn,“ segir Freysteinn.
Gervihnötturinn tekur aðra mynd í kvöld og vonast Freysteinn til að hægt verði að rýna í hana á fundi vísindaráðs almannavarna eftir hádegi á morgun. Að minnsta kosti verður hægt að skoða mynd laugardagsins betur.