Oddur Þórðarson
Í gær varð næststærsti jarðskjálfti sem mælst hefur á Reykjanesskaga frá því að skjálftahrina hófst á svæðinu í lok febrúar. Halldór Geirsson, dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að til þess að skjálftavirkni á Reykjanesskaga haldi áfram eftir að eldgos hefst á svæðinu þyrftu önnur kvikuinnskot að láta á sér kræla.
Að öllu óbreyttu muni mögulegt eldgos þó binda enda á skjálftahrinuna, sem enn má segja að sé í fullum gangi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Þrjú önnur kvikuinnskot, til viðbótar við margumræddan kvikugang undir Fagradalsfjalli, hafa fundist á Reykjanesskaga frá í fyrra. Þau eru þó langtum minni en kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli, sem valdið hefur yfirstandandi jarðskjálftahrinu.
Halldór og Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, eru sammála um að ef til goss kemur muni skjálftavirkninni linna.
Í gær mældust 2.600 skjálftar í sjálfvirku kerfi Veðurstofu Íslands. Stærsti skjálftinn varð sem fyrr segir upp úr klukkan 14 í gær og var 5,4 að stærð en sá næststærsti varð í hádeginu, 4,6 að stærð.