Frá því á miðnætti í dag, 15. mars, hafa rúmlega 1.400 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga. Mesta virkni hefur verið við Fagradalsfjall. Skjálfti af stærð 3,2 varð upp úr kl. 1 í nótt í Nátthaga og var það stærsti skjálftinn eftir miðnætti.
Það var frekar rólegt fram til kl. 16:30, þar sem virkni jókst aftur.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að virknin á svæðinu við Fagradal sé áfram mikil þótt skjálftar dagsins séu heldur minni en þeir voru um helgina.
Alls hafa fjórir skjálftar mælst yfir þremur frá miðnætti.
Bryndís segir að áður hafi komið svona dagar í hrinunni, sem hófst 24. febrúar, þar sem fáir stórir skjálftar finnast.
„Við getum því ekkert sagt til um hvort þetta muni ganga niður eða halda áfram,“ segir Bryndís.