Stjórnvöld grípi til bráðaaðgerða

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson dró Baldur í átt að Stykkishólmi.
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson dró Baldur í átt að Stykkishólmi. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Stjórn Vestfjarðastofu lýsir þungum áhyggjum af stöðu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum vegna ítrekaða bilana ferjunnar Baldurs.

Í ályktun hvetur stjórnin Alþingi, ráðherra samgöngumála og Vegagerðina til að grípa hratt til bráðaaðgerða til að minnka þann skaða sem atvinnulíf og samfélag svæðisins verða fyrir þegar samgöngur bregðast.

Óviðunandi öryggisleysi

„Það öryggisleysi sem íbúar og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum búa nú við í samgöngum er óásættanlegt og skorað er á samgönguyfirvöld að endurskoða strax forsendur öryggismats á siglingum ferju á Breiðafirði með einungis eina vél. Samtímis er gerð krafa um að samgönguyfirvöld setji fram viðbragðsáætlun til að bregðast við bilun af því tagi sem kom upp síðasta fimmtudag þegar ferjan varð vélarvana og farþegar og áhöfn máttu dúsa um borð í skipinu í 27 klukkustundir,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að þegar saman fari þungatakmarkanir á öllum þjóðvegum og ótryggar ferjusamgöngur hafi íbúar og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum í raun engar samgöngur hluta ársins.

Baldur við bryggju í Flatey í Breiðafirði.
Baldur við bryggju í Flatey í Breiðafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ítrekað kemur einnig upp sú staða að allar helstu leiðir til og frá Vestfjörðum lokist. Með vélarbilun í ferjunni Baldri þá voru allar leiðir til og frá Vestfjörðum ófærar í rúman sólarhring, en þá komu til viðbótar lokanir vegna snjóflóðahættu á Súðavíkurhlíð og óveðurs á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Klettshálsi, Dynjandisheiði og Svínadal. Auk þess var ófært flugleiðina bæði á Bíldudal og Ísafjörð. Innan atvinnu- og skólasóknarsvæða voru leiðir einnig lokaðar,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að grunngerð og innviðir svæðisins verði að styðja við vöxtinn og verðmætasköpunina sem er nú þegar til staðar á Vestfjörðum og muni aukast á næstu árum. Fjármagn til samgönguverkefna muni borga sig margfalt til baka, enda leiði allar tafir til taps fyrir þjóðarbúið.

„Ítrekaðar eru því ályktanir vestfirskra sveitarfélaga um flýtingu framkvæmda, en sem stendur þá munu úrbætur í samgöngumálum Vestfjarða ekki vera að fullu komnar í gagnið fyrr en að fimm árum liðnum auk þess sem grípa verður til bráðaaðgerða líkt og með ferjuna Baldur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert