Telur uppsprettu myglu vera í skólanum

Helsti sérfræðingur landsins í sveppum telur afar líklegt að uppspretta …
Helsti sérfræðingur landsins í sveppum telur afar líklegt að uppspretta kúlustrýnebbu sé að finna í skólanum. mbl.is/Hallur Már

„Það hlýtur að vera einhvers staðar uppspretta kúlustrýnebbu. Sem er lífvænleg þar sem þetta sprettur upp,“ segir í athugasemdum Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur, doktors í sveppafræði hjá Náttúrufræðistofu Íslands, við athugun og tegundagreiningu sveppa í sýnum úr Fossvogsskóla.

Guðríður Gyða, sem er helsti sérfræðingur á landinu í myglu, gerði þessa athugasemd við tegundagreiningu myglu í sýnum sem tekin voru þann 4. desember í Fossvogsskóla. Sýnatakan fór fram í kjölfar ítarlegra þrifa þann 2., 9. og 16 október. 

Í samtali við mbl.is staðfesti Guðríður Gyða að hún telji afar líklegt að það sé uppspretta einhvers staðar í skólanum og þaðan komi gróin sem hafa fundist við síðustu sýnatökur í skólanum. Hreingerningin sem gerð var í október var gerð til þess að hreinsa það sem hugsanlega hafði verið á sveimi í loftinu og hafði sest niður með ryki. Með sýnatöku eftir slík þrif væri hægt að gagna úr skugga um að mygla sem mælist væru ekki gamlir afgangar. 

Úr varð að áfram fundust gró af skaðlegum myglusvepp í Fossvogsskóla og því telur Guðríður Gyða að uppspretta hljóti að vera í húsinu. 

Þetta stangast á við málflutning kjörinna fulltrúa og sviðsstjóra Reykjavíkurborgar sem löngum hafa haldið því fram að aðeins sé myglugró að finna í húsinu. Tekið skal fram að sýnatakan sem um ræðir fór fram 4. desember í fyrra og lágu niðurstöður greiningarinnar fyrir ekki löngu seinna. 

Upplýsingar ekki aðgengilegar

Foreldrar í Fossvogsskóla hafa gagnrýnt samráðsleysi og upplýsingaskort þegar kemur að ákvarðanatöku og rannsókn á skólanum. Á sameiginlegum fundi skólaráðs Fossvogsskóla, sviðsstjóra skólasviðs Reykjavíkurborgar, formanns skólaráðs og annarra kjörinna fulltrúa var því heitið að tekið yrði á upplýsingamálum tengdum myglu í skólanum. 

Minnisblaðið sem hér er vísað í er dagsett 4. mars 2021 og er ekki að sjá að það sé aðgengilegt á framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar fyrir Fossvogsskóla þar sem birta átti allar upplýsingar.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/01/gagnryna_ad_hafa_ekki_verid_latin_vita_af_myglugro/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka