Hitamynd sem tekin var skömmu eftir skjálfta að stærð 5,3 á sunnudag sýnir talsverðan hita í jörðu á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga.
Ari Þórólfur Jóhannesson tók myndskeið af svæðinu með hitadróna sem sjá má hér að neðan. Ari segir í samtali við mbl.is. að dökk svæði á myndinni séu köld en appelsínugul séu afar heit. Myndskeiðið var tekið um tvo kílómetra austur af Grindavík í 100 metra hæð. Appelsínugul svæði á myndskeiðinu sjást glöggt á Borgarfjalli.
„Menn hafa eitthvað verið að spá hvort þetta hafi eitthvað með sólina að gera, en á sumum svæðum er snjór og á öðrum er það ekki þó að báðar hliðar vísi á sólina,“ segir Ari.
Ari notar hitadrónann helst til þess að leita að týndum gæludýrum, aðallega hundum. Það var því tilbreyting að mynda skjálftasvæðið sem Ari segir að hafi verið til gamans.