Traust til heilbrigðiskerfisins aldrei verið meira

Traust til heilbrigðiskerfisins hefur aldrei mælst meira.
Traust til heilbrigðiskerfisins hefur aldrei mælst meira. mbl.is/Ómar Óskarsson

Traust landsmanna til heilbrigðiskerfisins mælist nú 77% samkvæmt nýrri könnun Gallup og hefur aldrei mælst hærra á þeim 20 árum sem traust til heilbrigðiskerfisins hefur verið mælt. Þannig er traust til heilbrigðiskerfisins þriðja mest á eftir trausti til Landhelgisgæslunnar og embættis forseta Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Traust landsmanna til heilbrigðiskerfisins sveiflast ekki eftir búsetu en heldur fleiri karlar treysta heilbrigðiskerfinu en konur. Traust karla mælist 80% en kvenna 75%. Traust til heilbrigðiskerfisins mældist minnst árið 2016 eða aðeins 46% og hefur aukist ár frá ári síðan þá.

Fólk á aldrinum 35-44 ára ber mest traust til heilbrigðiskerfisins eða 83% þeirra. Þar á eftir kemur fólk á aldrinum 65 ára og eldri og bera 80% úr þeim hópi traust til heilbrigðiskerfisins.

Um 92% landsmanna segjast ánægð með sóttvarnaaðgerðir samkvæmt sömu könnun, en 3% sögðust hvorki ánægð né óánægð á meðan 4% landsmanna voru óánægð. Konur voru mun ánægðari með sóttvarnaaðgerðir en karlar. Traust kvenna mældist 96% en traust karla 87%. Ekki var munur á ánægju landsmanna með sóttvarnaaðgerðir eftir búsetu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert