„Við teljum að það vanti skýrari sýn á umfang þessa ofbeldis,“ segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Á fimmtudag var kynnt ný skýrsla um ofbeldi gegn öldruðum sem unnin var af greiningardeild ríkislögreglustjóra. Þar kemur fram að þörf sé á að rannsaka ofbeldi gegn öldruðum sérstaklega, enda bendi rannsóknir til þess að það sé falið, sjaldan tilkynnt og einkenni þess oft ekki þekkt. Vitnað er í tölur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem áætlar að tæp 16% fólk yfir sextugu verði fyrir ofbeldi. „Það er erfitt að byggja einvörðungu á tölulegum upplýsingum. Lögreglan hefur verið með mikið átak varðandi heimilisofbeldi. Það er samfélagslegt vandamál og við þurfum að fá fleiri aðila að borðinu til að fá skýrari sýn. Reykjavíkurborg og háskólasamfélagið hafa gert rannsóknir og það væri gott að fá fleiri slíkar til að geta horft betur til framtíðar,“ segir Runólfur. Hann vísar til þess að öldruðum muni fjölga umtalsvert á næstu áratugum og því mikilvægt að grípa inn í.
Rakið er í skýrslunni að lögregla hér á landi hafi lýst yfir áhyggjum af auknu heimilisofbeldi vegna viðbragða við kórónuveirufaraldrinum og bendi fyrirliggjandi tölur til 10% aukningar. Einkum sé þar um að ræða konur og börn en aldraðir Íslendingar í viðkvæmri stöðu hljóta ekki síður að hafa talist sérstakur áhættuhópur hvað ofbeldi varðar þegar aðgerðir á þeim tímum voru ákveðnar.
Ofbeldi sem aldraðir kunna að sæta er skipt í nokkra flokka; líkamlegt ofbeldi svo sem áverka og skurði, tilfinningalegt ofbeldi svo sem bjargarleysi eða ótta, fjárhagslegt ofbeldi svo sem að peninga skorti fyrir nauðsynjum og vanrækslu svo sem að aldraður sé illa klæddur eða vannærður.
Meðal þess sem lagt er til í skýrslu ríkislögreglustjóra er að bakgrunnur starfsfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði kannaður með tilliti til ofbeldishegðunar, gerðar verði frekari rannsóknir á ofbeldi gagnvart öldruðum á Íslandi og þekking lögreglu og almennings á einkennum ofbeldis gegn öldruðum verði efld. „Við erum til að mynda að fara af stað með Neyðarlínunni og fleiri aðilum að reyna að koma af stað vitundarvakningu. Það er mikilvægt að koma umræðunni af stað,“ segir Runólfur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars.