Baldur siglir ekki á morgun

Baldur við bryggju í Flatey.
Baldur við bryggju í Flatey. mbl.is/Sigurður Bogi

Breiðafjarðarferjan Baldur mun ekki sigla samkvæmt áætlun á morgun eins og stefnt hafði verið að. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sæferðum, rekstraraðila ferjunnar.

Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða, komu bæði gamla og nýja túrbína skipsins til Reykjavíkur í gær. Innflytjandi þeirra skoðaði þær í gær og í dag. „Eftir samskipti milli innflytjanda og erlenda söluaðilans þar sem hann staðfesti gæði nýju túrbínunnar  og ábyrgð var í samráði við þessa aðila ákveðið að setja í gang að koma nýju túrbínunni í Baldur,“ segir í tilkynningu Gunnlaugs. 

Hann upplýsir að síðdegis í dag hafi sérfræðingar innflytjandans farið vestur með nýju túrbínuna og afgashúsið sem einnig var sent til skoðunar. „Búið er að setja þetta saman (túrbínu og afgashús) og fer því samsett vestur og í Baldur strax í fyrramálið. Talið er að samsetning og frágangur um borð taki um 4-6 klst. og eftir það er hægt að setja í gang og í kjölfarið sigla prufusiglingu,“ segir hann.

„Í þessu ljósi er ekki raunhæft að ætla að hægt verði að sigla í áætlun á morgun kl. 15 eins og við höfum verið að stefna að heldur er nú stefnt að því að sigla á fimmtudaginn en rétt sem fyrr að fá að slá varnagla enda ekki búið að klára þessa vinnu við samsetningu og prufa,“ segir hann enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert