„Bandaríkjamenn og Bretar hafa verið okkur dýrmætastir“

Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár.
Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Friðrik Pálsson, eigandi Hótels Rangár, segir hótelið fá mikið af erlendum fyrirspurnum varðandi sumarið og að spenningurinn fyrir því að fá að ferðast sé orðinn verulegur. 

„Ekki síst fáum við þær spurningar frá Bandaríkjunum og Bretlandi sem því miður liggja utan við Schengen-samstarfið,“ segir Friðrik.

„Hinar þjóðirnar að sjálfsögðu, Evrópuþjóðirnar eru okkur mjög mikils virði líka en Bandaríkjamenn og Bretar hafa verið okkur dýrmætastir á síðustu árum og þeir eru mjög spenntir fyrir því að koma, við verðum vör við það á hverjum degi.“

Eins og er er ekki tekið við bólusetningarvottorðum frá farþegum frá ríkjum utan við Schengen samstarfið samkvæmt tilmælum ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Einn og einn gestur innan Schengen 

Friðrik segir þá að einn og einn gestur innan Schengen sé byrjaður að tínast inn á Hótel Rangá. Um sé að ræða gesti sem hafa komið til landsins með bólusetningarvottorð. 

„Þetta er að vísu enn þá teljandi á fingrum annarrar handar,“ segir Friðrik. 

Friðrik bendir á að fólk óski nú eftir því að afbókunartímabil sé stytt. „Sem við að sjálfsögðu verðum við eins og við getum því það er bara svo mikil óvissa í þessu.“

Þrátt fyrir að mikið sé um fyrirspurnir segir Friðrik aðspurður að ekki sé mikið um bókanir erlendis frá. Hann bendir þó á að enn hangi inni bókanir sem gerðar voru fyrr í vetur. 

Hótel Rangá.
Hótel Rangá.

„Fólk var auðvitað mjög bjartsýnt fyrri hluta vetrar um að það myndi allt verða komið í lag í sumar og að árið 21 yrði gott ferðaár þannig það auðvitað hangir inni töluvert af svoleiðis bókunum sem við erum síðan jafnt og þétt að fara yfir og fá því miður flest afbókað en einstaka staðfesta en það er fullkomin óvissa enn þá í rauninni alls staðar um það hvað verður,“ segir Friðrik.

Sanngjörn og skynsamleg leið

Friðriki finnst vel þess virði að hamra á því að hægt væri að taka við fólki frá löndum utan Schengen. En líkt og greint var frá á mbl.is í dag telur Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ráðherra ferðamála, það mikilvægt að leitað verði allra leiða til að koma á gagn­kvæmri viður­kenn­ingu sem allra fyrst svo bólu­setn­ing­ar­vott­orð verði tek­in gild hvað varðar lönd sem standa utan Schengen-sam­starfs­ins. 

„Þessi leið sem hefur verði nefnd sem væri það að við gætum hleypt inn til okkar, af því við erum í dálítilli sérstöðu, fólki frá Bandaríkjunum og Bretlandi til dæmis, sem eru utan Schengen, en hins vegar staðið vörð um það að það fólk fari ekki áfram til Evrópu inn á Schengen svæðið, það finnst mér vera afskaplega skynsamleg leið og satt að segja sanngjörn,“ segir Friðrik og bætir við: 

„Það er erfitt í sjálfu sér hvaða rök eru gegn því, innan Schengen svæðisins nema bara hrein pólitík, þá hefur þetta ekki lengur neitt með heilsufarsástand að gera eða neitt í þá veru heldur er þetta orðið spurning um það hvort það þurfi endilega að gilda nákvæmlega sömu reglur fyrir alla innan Schengen í þessu ástandi sem er náttúrulega eins og milljón sinnum hefur verði sagt, fordæmalaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert