Berklasmit á Hrafnistu í Reykjanesbæ

Nesvellir í Reykjanesbæ.
Nesvellir í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Hrafnista

Starfsmaður Nesvalla, hjúkrunarheimilis Hrafnistu í Reykjanesbæ, greindist með berkla í síðustu viku. Greint er frá málinu á vef Fréttablaðsins þar sem haft er eftir Þuríði Ingibjörgu Elíasdóttur, forstöðumanni Nesvalla, að málið sé í vinnslu.

Þar kemur enn fremur fram að starfsfólk hafi verið sent í skoðun þegar tilkynnt var um smitið í síðustu viku. Fleiri úr hópnum hafi mælst jákvæðir en ekki sé ljóst hvort um sé að ræða virk smit.

Berst manna á milli með loftbornu smiti

Berklar er alvarlegur smitsjúkdómur en bakterían berst manna á milli með loftbornu smiti um öndunarfæri, þaðan berst hún um líkamann með blóðrásinni og getur hreiðrað um sig í ýmsum líffærum, að því er fram kemur á vef landlæknis.

Sýking í lungum er algengust en bakterían getur einnig lagst á önnur líffæri eins og nýru, miðtaugakerfi og bein. Talið er að 10% þeirra sem smitast fái sjúkdóm með virkri berklasýkingu á fyrstu tveimur árunum eftir smit. Þeir sem hafa smitast en fá ekki einkenni um sjúkdóm eru með leynda berkla. Við leynda berkla er bakterían til staðar í líkamanum en veldur ekki sýkingu og viðkomandi er ekki smitandi.

Hægt er að bera berklabakteríuna alla ævi án þess að sjúkdómur komi fram, þar sem heilbrigt ónæmiskerfi getur haldið smitinu í skefjum. Við veiklað ónæmiskerfi geta bakteríurnar fjölgað sér og sjúkdómurinn tekið sig upp. Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar.

Alls eru um tíu berklasmit hér á landi ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert