Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi í gær bótaskyldu TM í máli ungs drengs sem slasaðist á byggingarsvæði við skólalóð í september 2016.
Drengurinn, sem var níu ára þegar slysið átti sér stað, hafði farið á byggingarsvæðið til að leita að bolta að beiðni drengs sem hafði verið að leik á sparkvelli grunnskóla við hlið byggingarsvæðisins. Drengur fór upp á sand- og malarhrúgu til að freista þess að finna boltann þegar stórgrýti sem var í hrúgunum rann af stað og hann einnig með þeim afleiðingum að grjótið fór yfir bak hans og höfuð og lenti ofan á fótlegg hans.
Drengurinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl og reyndist lærleggsbrotinn.
Í ágúst 2017 kröfðust forráðamenn drengsins viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu verktakans sem stóð að byggingarframkvæmdunum en var bótaskyldu hafnað.
Móðir drengsins höfðaði mál gegn TM fyrir hönd sonar síns, en fyrir dómi var meðal annars byggt á því að ríkar skyldur hafi hvílt á verktakanum að tryggja öryggi barna, sem ítrekað leituðu inn á byggingarsvæðið, og að þau kæmust ekki inn á svæðið. Þá var byggt á því að háttsemi drengsins hafi ekki verið frábrugðin þeirri háttsemi sem vænta megi af níu ára gömlu barni og verktakinn hafi mátt gera ráð fyrir. Háttsemi eða athafnaleysi verktakans hafi verið ráðandi þáttur í því að slysið varð.
Taldi dómurinn að í ljósi aðstæðna og vitneskju verktakans um tilhneigingu barna til að leita inn á svæðið hafi frágangur stórgrýtis á svæðinu verið mjög varhugarverður og gat hætta vegna frágangsins ekki dulist verktakanum.
Auk þess sem bótaskylda var viðurkennd í málinu var TM gert að greiða 1,2 milljónir króna í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.