Gauti Jóhannesson hefur ákveðið að bjóða sig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna alþingiskosninganna í september.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur leitt listann frá árinu 2007 en hann tilkynnti nýlega að hann myndi ekki gefa kost á sér aftur.
Í tilkynningu Gauta segir hann að einlægur áhugi hans til að láta gott að sér leiða í kjördæminu liggi að baki ákvörðuninni en einnig stuðningurinn og hvatningin sem hann hafi fengið víða að.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt meirihlutann í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi Múlaþingi frá því kosið var til sveitarstjórnar í haust. Í aðdraganda þeirrar ákvörðunar að bjóða mig fram til þings hef ég verið í góðu sambandi við samstarfsfólk mitt á svæðinu og efast ekki um að það góða fólk mun halda áfram öflugu starfi flokksins í sveitarfélaginu fari svo að ég hverfi til starfa á öðrum vettvangi,“ segir hann í tilkynningunni.
„Að mínum dómi er mikilvægt er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins endurspegli sem best kjördæmið allt, hafi ólíkan og fjölbreyttan bakgrunn og innsýn í þau margbreytilegu viðfangsefni sem við er að eiga hvort heldur það er í fjölmennustu þéttbýliskjörnunum eða dreifbýlinu.“
Hann segir að í starfi sínu sem sveitarstjóri síðustu tíu ár og þar áður sem skólastjóri hafi hann aflað sér fjölbreyttrar og mikilvægrar reynslu. Áherslur hans eru og hafa verið byggða- og atvinnumál í víðum skilningi. Einnig er hann talsmaður einföldunar í regluverki.
„Markmið Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er að ná þremur þingsætum í kosningunum í haust. Við eigum ekki að sætta okkur við minna,“ skrifar hann meðal annars.