Grundvallarforsenda þess að hér verði ferðaþjónusta

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Öll óvissa um þetta, hvort þetta verði eða ekki, setur allt í uppnám um leið. Bæði upp á endurgreiðslur og svo tapast traust á að nýja dagsetningin standi. Þetta skiptir gríðarlegu máli,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við mbl.is í dag.

Vísar hann til ummæla Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í Kastljósi á Rúv. í gærkvöldi um að fyrirhuguð breyting á skimunum við landamærin standi. 

Hann segir að breytt fyrirkomulag á landamærunum sé grundvallaratriði fyrir því að það verði einhver ferðaþjónusta hér á landi í sumar. 

Tók af allan vafa

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók allan vafa af því að ráðist verði í breytt fyrirkomulag við móttöku fólks á landamærum Íslands.

„Ríkisstjórnin hefur talað alveg skýrt í þeim efnum að þá [1. maí] taki við þetta litakóðunarkerfi. [...] Síðan fari það eftir því á hvaða stað viðkomandi ríki er hvaða reglur gilda fyrir viðkomandi borgara á landamærum. Þetta er okkar markmið, það hefur verið mjög skýrt og ríkisstjórnin hefur ákveðið þessa leið,“ sagði Svandís í gærkvöldi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í Kastljósi gærkvöldsins.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í Kastljósi gærkvöldsins. Skjáskot

„Þetta litakóðunarkerfi hjálpar okkur í raun og veru að leggja mælikvarðann á löndin í kring um okkur vegna þess að við getum ekki ákveðið þetta einhliða. [...] Um leið og við erum komin með meiri árangur á bólusetningum innanlands þá þurfum við að hafa minni áhyggjur af því sem gerist á landamærunum. Það gefur augaleið,“ bætti Svandís við.

Hið svokallaða litakóðunarkerfi snýst um að lönd verði flokkuð í grænan, appelsínugulan og rauðan flokk eftir tölfræði um nýgengi smita og fjölda skimaðra í landinu. Mismunandi aðgerðir við landamærin munu gilda fyrir borgara landa eftir flokkum. Borgarar grænna landa munu þannig getað framvísað neikvæðu PCR-prófi við komu til landsins og sleppt sóttkví, eða framvísar bólusetningar- eða mótefnavottorði. 

Sóttvarnareglur sem gilda munu fyrir ólíka áhættuflokka.
Sóttvarnareglur sem gilda munu fyrir ólíka áhættuflokka. Skjáskot frá stjórnarráði

Jóhannes Þór segir að það væri bæði ánægjulegt og mikilvægt að heilbrigðisráðherra talaði skýrt í þessu máli. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að þessi ákvörðun standi því að frá því að hún var gefin út þann 15. janúar þá hefur markaðsstarf ferðaþjónustunnar fyrir sumarið gengið út á það að segja frá því að þetta verði svona. Að það verði hægt að ferðast til Íslands án skimunar frá þeim löndum sem verða flokkuð græn og appelsínugul,“ segir Jóhannes Þór. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í Kastljósi á Rúv þann 8. mars að engin ákvörðun hefði verið tekin um að losa um sótt­varnaaðgerðir á landa­mær­un­um sem hluta af kröfu um nei­kvætt PCR-próf við komu til lands­ins. 

„Nei, það eru ekki áform um það. Það hef­ur ekki verið tek­in nein ákvörðun um það. Hins veg­ar höf­um við sagt að það væri mjög áhuga­vert að skoða hvort ekki verði hægt, ef við krefj­umst PCR-prófs áður en fólk kem­ur, hvort ekki sé nóg að taka eitt sýni þegar fólk er að koma hingað inn og sleppa þá seinni skimun og sleppa sótt­kví. Þetta erum við að skoða og rann­saka núna,“ sagði Þórólf­ur þann 8. mars. 

Jóhannes segir Þórólf Guðnason sóttvarnalækni ítrekað hafa talað eins og þessi ákvörðun um breytt fyrirkomulag á landamærunum liggi ekki fyrir. „Í hvert sinn sem þetta gerist þá hriktir í í kring um okkur, því að fréttir hér, þær berast ótrúlega hratt út á markaðinn,“ segir Jóhannes Þór. 

„Þó að menn haldi að menn séu bara að tala við Björn Inga og fleiri sem eru á upplýsingafundum hjá sóttvarnalækni og almannavörnum þá er fylgst með því víða um heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert