Kolrangt hjá ÁTVR

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra bindur vonir við að frumvarp um …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra bindur vonir við að frumvarp um smásölu smærri brugghúsa á framleiðslustað verði að lögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÁTVR hefur gagnrýnt frumvarp dómsmálaráðherra harðlega um að heimila smærri brugghúsum að selja bjór beint af framleiðslustað. Ríkisvínbúðin hefur sagt að breytingin myndi að öllum líkindum leiða til þess að forsendur fyrir rekstrinum brystu.

Dómsmálaráðherra er á öðru máli.

„Ég held að það sé kolrangt að þetta muni kippa fótunum undan rekstri áfengisverslunar ríkisins. Þetta eru 2,3% af sölu þeirra, bjórarnir sem eru framleiddir af þessum örfáu brugghúsum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í samtali við mbl.is.

Brugghúsin flest langt frá hámarkinu

Af 28 brugghúsum á landinu flokkast 25 sem smærri brugghús. Þessum 25 yrði með breytingunum heimilt að selja bjór á framleiðslustað svo fremi sem ekki væru framleiddir meira en 500.000 lítrar af bjór árlega.

Á grundvelli þessarar tölfræði reiknaði Vínbúðin sig að þeirri sviðsmynd að ef allir 25 framleiðendurnir færu mjög nálægt þessari hámarksframleiðslu, gætu lítrarnir orðið allt að 10 milljónum, sem væri þá hátt í helmingur allrar bjórsölu verslunarinnar síðastliðið ár. Sem færi þá óskiptur til smærri brugghúsanna.

„Það er auðvitað langt í frá að öll þessi litlu brugghús geti framleitt hámarkið, heldur eru það örfá sem fara nálægt þessu hámarki,“ segir Áslaug Arna.

ÁTVR rekur ríflega 50 verslanir vítt og breitt um landið. …
ÁTVR rekur ríflega 50 verslanir vítt og breitt um landið. Ársverk voru 354 á árinu 2019 en mun fleiri vinna þau, enda margir í hlutastarfi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Bindur vonir við að frumvarpið verði samþykkt

Frumvarpið hefur farið í gegnum fyrstu umræðu í þinginu og er nú til umfjöllunar hjá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

„Frumvarpið er í nefnd og þau hafa fengið fjölda gesta. Það hafa komið inn fjölmargar jákvæðar umsagnir og auðvitað einhverjar neikvæðar eins og von var á,“ segir Áslaug.

Áslaug leggur frumvarpið fram sem ráðherra og það flokkast sem stjórnarfrumvarp. „Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt skref og bind vonir við að þetta verði samþykkt í þinginu,“ segir ráðherrann. Fyrra frumvarp Áslaugar um að heimila netsölu áfengis hlaut ekki afgreiðslu ríkisstjórnar.

„Það er auðvitað ótrúlegt hvernig opinberir aðilar leggjast gegn öllum samkeppnisrekstri eins og þessi umsögn leiðir af sér. Meira segja örlítil breyting fyrir nokkur brugg­hús­ er talið ógna sterkri stöðu ríkisverslunarinnar. Samkeppni leiðir langoftast til jákvæðra breytinga fyrir fólk og atvinnulíf,“ segir Áslaug.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert