Nánast óbreytt ástand fram yfir páska

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eng­ar stór­vægi­leg­ar breyt­ing­ar verða á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi eft­ir 17. mars. Þetta staðfesti Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra eft­ir rík­is­stjórn­ar­fund í dag.

Aðeins verða gerðar breyt­ing­ar sem snúa að fram­kvæmd ein­stakra viðburða, svo sem í tengsl­um við ferm­ing­ar og leikhús. Reglu­gerðin sem heil­brigðisráðherra samþykkti mun gilda til 9. apríl.

Ein breyting snýr að hléum á leiksýningum, þar sem hlé hafa síðustu vikur verið heimiluð, þó að ekki hafi mátt kaupa áfengi.

„Það hefur mátt hafa hlé í leikhúsi og fara fram en nú vill sóttvarnalæknir takmarka þetta. Við leggjum til að fólk haldi kyrru fyrir í sætum þó að það sé gefið hlé, það þarf að gefa listamönnum hlé. Fólk heldur kyrru fyrir í sætum sínum núna til að koma í veg fyrir hópamyndun,“ segir Svandís.

Hátt í 800 hafa mátt koma saman í stórum sölum, eins og á tónleikum í Hörpu, þar sem salnum er skipt í fjögur hólf. Hlé hefur þá verið haft, en héðan af þarf fólk að sitja áfram á sínum stað.

Varðveita árangurinn

Einstaka kórónuveirusmit greinast enn á stangli, en flestöll greinast þau í sóttkví, og það virðist hafa tekist að ná utan um það sem óttast var að kynni að verða upphaf að nýjum faraldri hér á landi. „Staðan á Íslandi er bara mjög góð,“ segir Svandís. „Ísland er í raun og veru með minnstar takmarkanir í Evrópu, þannig að samfélagið er sem betur fer tiltölulega opið.“

„Við höfum hug á að varðveita þennan góða árangur og þess vegna tökum við mjög varfærin skref og ætlum að halda því áfram. En við munum auðvitað halda áfram að taka skref í átt til afléttingar eftir því sem bólusetningum vindur fram og ef við höfum áfram þessi góðu tök á faraldrinum sem við höfum haft hingað til,“ segir ráðherra. „Það er auðvitað alltaf markmiðið að við séum að losa um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert